Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
14. október 2019

Íslenskar lausnir kynntar í Vladivostok og Kamtsjatka

Íslenskar lausnir kynntar í Vladivostok og Kamtsjatka
Íslandsstofa og sendiráð Íslands í Moskvu stóðu á dögunum fyrir viðskiptasendinefnd íslenskra fyrirtækja, með lausnir fyrir sjávarútveg, til Rússlands.

Lá leiðin til Vladivostok og Kamtsjatka á austurströnd landsins. Eftirtalin fyrirtæki skipuðu sendinefndina; Hampiðjan, Kapp, Knarr, Marel, Naust Marine, Nautic, Skaginn 3X, Sæplast og Valka.

Í Vladivostok tók hópurinn þátt í ráðstefnunni International Fishermen Congress en þetta er í 14. sinn sem hún er haldin. Auk almennrar þátttöku í ráðstefnunni tóku öll íslensku fyrirtækin jafnframt þátt í málstofu um tækniþróun í sjávarútvegi á fyrri degi ráðstefnunnar – eða „sjávarútveg morgundagsins” – þar sem öll íslensku fyrirtækin voru með erindi. Seinni dag ráðstefnunnar voru síðan einnig erindi á dagskrá frá Völku og Skaganum 3X í málstofu um tækniþróun í fiskeldi. Þá átti allur hópurinn fund með landstjóra svæðisins auk aðila úr sjávarutvegsráðuneyti þess.

Í Kamtsjatka, n.t.t. Petropavlovsk, skoðaði hópurinn fiskvinnslu sem opnuð var 4. október síðastliðinn, en þar mátti m.a. sjá búnað frá bæði Marel og Skaganum 3X. Einnig var fundað með landstjóra svæðisins, auk þess kynningar, fjöldi B2B funda og fyrirtækja heimsókna hafði verið skipulagður.

Íslenski hópurinn vakti töluverða athygli á báðum stöðum þar sem fjölmiðlar fjölluðu um fyrirtækin, Ísland og íslenskt hugvit. Fylgdu bæði sjónvarpsstöð og blöð hópnum m.a. í heimsókn til tæknifyrirtækisins DalRyb TechCenter þar sem viðtöl voru tekin við bæði sendiherra og fulltrúa fyrirtækjanna. Þá vinnur sjávarútvegsmiðillinn Fish News, sem þekktur á þessu svæði, að útgáfu blaðs sem tileinkað verður íslenskri sjávarútvegstækni.

Með fylgja nokkrar myndir frá heimsókninni. Fyrir áhugasama fylgir hér einnig hlekkur á frétt frá fundi íslenska hópsins með ráðamönnum í Kamtsjatka - sem birtist í aðalfréttatíma sjónvarpsins í Petropavlovsk-Kamchatskiy (sjá frá mín. 2:50).

Deila