Íslenskur sjávarútvegur, matur og menning í Boston í mars
Íslandsstofa hefur umsjón með þátttöku 15 íslenskra fyrirtækja í sjávarútvegssýningunni í Boston sem fram fer 19.-21. mars. Á þjóðarbásum Íslands munu fyrirtækin kynna fiskafurðir og tækni og lausnir fyrir sjávarútveg. Samhliða sýningunni fer fram í Boston kynning á íslenskum mat og menningu á vegum „Iceland Naturally“.
Sjávarútvegssýningin í Boston er stærsta sýning sinnar tegundar í Norður-Ameríku og sækja hana um 22.000 manns. Þátttakendum frá Íslandi hefur fjölgað töluvert síðustu ár auk þess sem fjöldi gesta frá Íslandi sækir sýninguna heim. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sjávarútvegsráðherra, heimsækir sýninguna, hittir íslensku fyrirtækin og kynnir sér viðskiptaumhverfi þeirra.
Aukning í útflutningi ferskra afurða til Norður Ameríku
Útflutningur sjávarafurða og eldisfisks til Norður Ameríku hefur farið vaxandi síðustu ár og hlutdeild í heildarútflutningi sjávarafurða aukist nokkuð, í 8%. Þorskur er nærri 50% útflutningsins og hefur útflutningur á ferskum afurðum aukist mikið, bæði til Bandaríkjanna og Kanada. Árið 2016 voru flutt út 21.660 tonn af sjávarafurðum til Bandaríkjanna, 2.100 tonn af eldisafurðum og 343 tonn af lagmeti, samtals að verðmæti 21,5 milljarðar króna. Sjá ítarlegar upplýsingar um útflutninginn 2016 hér á vefnum.
Góður árangur af samstarfi
Á afurðahluta sýningarinnar eru sameiginlegir hagsmunir íslenskra útflytjenda sjávarafurða kynntir undir merkjum „Iceland Responsible Fisheries“ með áherslu á vottun íslenskra fiskistofna og ábyrgar fiskveiðar. Íslenskir framleiðendur og útflytjendur sjávarafurða sem njóta þjónustu viðskiptafulltrúans í New York og Íslandsstofu kynna afurðir sínar og þjónustu undir yfirskriftinni „Fresh or Frozen – Sourcing from Iceland“. Þetta eru HB Grandi, Iceland Seafood, Novo Food, Ice-Co Foods, Matorka, Reykjavík Seafood, Blámar, Arnarlax og Ísfiskur. Þetta er í sjötta sinn sem afurðafyrirtæki nýta sér samstarfið við viðskiptafulltrúann og Íslandsstofu með þessum hætti og hefur árangurinn af fyrri sýningum verið góður.
Tæknilausnir Íslendinga í farabroddi á heimvísu
Fyrirtækjum á tækni- og þjónustuhluta sýningarinnar hefur fjölgað undanfarin ár. Íslensk fyrirtæki sjá ákveðin tækifæri á að bjóða búnað í vinnslur í Norður-Ameríku. Þau hafa verið heldur á undan í tæknivæðingu í vinnslum og hafa þar af leiðandi fundið fyrir vaxandi áhuga frá NA. Þau Íslensku fyrirtæki er kynna lausnir tengdar veiðum og vinnslu eru Skaginn 3X, Valka, Optimar Kapp, Wise og Eimskip. Auk þess er Marel með stóran bás á sýningunni.
Taste of Iceland
Landkynningarhátíðin Taste of Iceland verður haldin í Boston í áttunda sinn dagana 16.-20. mars nk. Markmiðið er að kynna Ísland og vörur og þjónustu frá Íslandi fyrir heimamönnum í gegnum upplifun á mat og menningu.
Markmiðið er að kynna Ísland og vörur og þjónustu frá Íslandi fyrir heimamönnum í gegnum upplifun á mat og menningu. Sigurður Helgason, matreiðslumeistari á Grillinu kynnir fyrsta flokks íslenska matargerð og hráefni á veitingastaðnum The Merchant sem staðsettur er í miðbæ Boston. Gestir á veitingastaðnum fá einnig tækifæri til að gæða sér á verðlaunadrykkjum Kára Sigurðssonar kokteilgerðarmeistara. Meðal menningarviðburða eru tónleikarnir Reykjavík Calling, myndlistarsýning og stuttmyndadagskrá. Hér má nálgast upplýsingar um dagskrá Taste of Iceland.
Matís kynnir World Seafood Congress
Á íslenska þjóðarbásnum ætlar Matís að kynna ráðstefnuna World Seafood Congress sem haldin verður í Reykjavík 10. – 14. september. Þetta er einn stærsti viðræðuvettvangur í heimi á sviði verðmætasköpunar í sjávarútvegi og matvælaöryggis. Ráðstefnan er mjög stór og dregur til sín fólk úr öllum hornum sjávarútvegs og fiskveiða, frá villtum veiðum til fiskeldis og allt þar á milli. Á ráðstefnuna koma aðilar frá útgerðum, fiskvinnslum, innflutningsaðilum, útflutningsaðilum, fólki úr menntastofnunum, fyrirtækjum og ríkisreknum stofnunum úti um allan heim.
Nánari upplýsingar veita Berglind Steindórsdóttir berglind@islandsstofa.is (sýningar)
Guðný Káradóttir gudny@islandsstofa.is (matvæli, sjávarútvegur og landbúnaður),
Kristjana Rós Guðjohnsen kristjana@islandsstofa.is v/Taste of Iceland. Sími 511 4000.