JATA ferðakaupstefnan í Osaka
Íslensk fyrirtæki hafa verið árlegir þátttakendur á þessari sýningu undanfarin ár en nú voru þau fimm talsins sem stóðu vaktina á Íslandsbásnum. Það voru Gray Line, Icelandair, Iceland Travel og Viking KK, auk Íslandsstofu.
Þetta árið var sýningin haldin í Osaka, en alla jafna fer hún fram í Tókýó og þá fyrr á haustinu. Sýningin var að venju vel sótt og vöktu þrívíddar gleraugu mikla athygli sem gestir gátu sett upp og séð Ísland frá nýju sjónarhorni.
Japanski markaðurinn er nokkuð stöðugur og hefur Ísland haldið hlut sínum þar. Til stendur að taka þátt að ári og mega áhugasamir setja það í bækur sínar að sýningin verður í Tókýó dagana 10. til 12. september 2020 og verður þá með eilítið öðru sniði þ.e. stendur yfir færri daga og verður meira viðskiptamiðuð en áður. Ekki er loku fyrir það skotið að heimsóttar verði fleiri borgir og haldnar kynningar og fundir í tengslum við kaupstefnuna að ári.