Landsmót hestamanna haldið á Hólum í Hjaltadal
Markaðsverkefnið Horses of Iceland sem Íslandsstofa hefur umsjón með, tekur þátt í Landsmóti hestamanna á Hólum í Hjaltadal dagana 27. júní til 3. júlí. Landsmótið í ár er hið 22. í röðinni en það var fyrst haldið á Þingvöllum árið 1950. Mótið er einn stærsti íþróttaviðburður landsins og er búist við miklum fjölda gesta á mótið, bæði íslenskum hestamönnum og og áhugafólki um íslenska hestinn í öðrum löndum. Íslenski hesturinn hefur numið land í nítján löndum utan Íslands, nú síðast í Ástralíu, og eru hestamannafélög starfandi í öllum þessum löndum. Íslenskir hestar í heiminum eru rúmlega 260.000 og þar af 98.000 á Íslandi (skv. upplýsingum í Worldfeng gagnagrunninum).
Markmiðið er að styrkja ímynd íslenska hestsins á heimsvísu og standa faglega að sameiginlegu markaðs- og kynningarstarfi undir merkjum Horses of Iceland - bring you closer to nature. Ímyndin byggir meðal annars á því að íslenski hesturinn verði þekktur á heimsvísu sem hesturinn sem færir fólk nær náttúrunni. Samstarfið mun tryggja samræmd skilaboð, meiri slagkraft og skýra stefnu í kynningu með langtímasjónarmið að leiðarljósi.
Rúmlega 40 aðilar taka þátt - fleiri boðnir velkomnir
Samstarf um kynningu á íslenska hestinum á heimsvísu undir merkjum Horses of Iceland er að eflast og eru um 40 þátttakendur, samtök í hestasamfélaginu, ræktunarbú, fyrirtæki og þjónustuaðilar, auk Íslandsstofu og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Á Landsmóti verður lögð áherslu á að funda með erlendum aðilum og treysta samstarfið við þá í kynningu á íslenska hestinum á heimsvísu.
Samfélagsmiðlar nýttir í kynningunni
Verkefnið Horses of Iceland verður með virka upplýsingamiðlun á samfélagsmiðlum, Instagram, Facebook, Twitter og Snapchat (horsesoficeland), meðan á mótinu stendur og eru allir sem sækja mótið hvattir til að nota #horsesoficeland, @horsesoficeland, facebook.com/horsesoficeland.
Velomin á Horses of Iceland Café!
Komið hefur verið upp skemmtilegri aðstöðu til að fræðast á daginn og skemmta sér á kvöldin í reiðhöll á Hólum, Horses of Iceland Café. Þar fara fram fundir og fróðlegar kynningar á daginn en á kvöldin er söngur og gleði - og fótbolti. Í höllinni er sýnt beint streymi frá keppninni alla keppnisdagana.
Jelena Ohm, verkefnisstjóri Horses of Iceland hjá Íslandsstofu verður á staðnum og hægt er að bóka fundi með henni og aðilum í verkefnisstjórn meðan á Landsmóti stendur.
Nánari upplýsingar um Landsmótið má finna á vefsíðu mótsins sem og á Facebook.
Nánari upplýsingar um Horses of Iceland verkefnið veitir Jelena Ohm, Verkefnastjóri Horses of Iceland hjá Íslandsstofu, jelena@islandsstofa.is, sími 511 4000 og gsm 895 9170. Sjá einnig hér á vefnum.