Loftslagsmálin rædd á málstofu ábyrgrar ferðaþjónustu
Í skýrslunni eru dregnar saman niðurstöður úr rannsókn sem gerð hefur verið á starfsemi þeirra fyrirtækja sem skrifað hafa undir yfirlýsinguna um ábyrga ferðaþjónustu. Markmiðið er annars vegar að kanna hvernig fyrirtækin eru að uppfylla þau loforð sem þau hafa undirgengist og hins vegar að draga saman þekkingu og dæmi um þær aðgerðir og lausnir sem fyrirtæki hafa gripið til í umhverfis- og samfélagmálum. Óskandi er að sú þekking verði fleiri fyrirtækjum hvatning til að innleiða ábyrga starfshætti og stuðla þannig að sjálfbærri ferðaþjónustu á Íslandi
Skýrsluna má nálgast hér: Ábyrg ferðaþjónusta. Niðurstaða könnunar meðal þátttakenda.
Streymi frá málstofunni, sem bar heitið Loftum út um loftslagsmálin, má nálgast hér.
Á málstofunni voru einstaklega áhugaverð og hagnýt erindi sem við hvetjum alla til að kynna sér. Fyrirtæki deildu reynslusögum og hagnýtum leiðum þegar kemur að loftslagsaðgerðum. Þá tók Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir ferðamálaráðherra þátt í umræðupanel og hvatti okkur til að leggjast öll á eitt að þeirra framtíðarsýn að Íslandi verði leiðandi þegar kemur að sjálfbærri ferðaþjónustu. Halldór Þorgeirsson formaður loftslagsráðs hélt þá áhugavert erindi þar sem hann lagið upp þá vegferð sem við leggjum í þegar við vinnum að því að minnka kolefnisfótspor okkar og hvatti hann okkur til að leggja í þá vegferð með heiðarleika og ábyrgð að leiðarljósi.
Ábyrg ferðaþjónusta er hvatningarverkefni um að fyrirtæki tengd ferðaþjónustu sammælist um nokkrar skýrar og einfaldar aðgerðir um ábyrga ferðaþjónustu. Tilgangur verkefnisins er að stuðla að því að Ísland verði ákjósanlegur áfangastaður ferðamanna um ókomna tíð sem styður við sjálfbærni fyrir komandi kynslóðir þjóðarinnar.
Ábyrg ferðaþjónusta hefur verið framkvæmd af Íslenska ferðaklasanum og Festu, þá hafa Samtök ferðaþjónustunnar nýverið bæst í hópinn sem einn af framkvæmdaraðilum verkefnisins.
Samstarfsaðilar að verkefninu eru Ferðamálastofa, Íslandsstofa, Höfuðborgarstofa, Markaðsstofur landshlutanna, Stjórnstöð ferðamála og Safe Travel.
Eigendur að verkefninu eru fyrirtæki í íslenskri ferðaþjónustu.