Málþing um verktækni og orkumál í Berlín
Í tilefni opinberrar heimsóknar forseta Íslands til Þýskalands, efndu Íslandsstofa og sendiráð Íslands í Þýskalandi til málþings um verktækni og orkumál í Berlín í gær. Málþingið fór fram í húsakynnum Commerzbank en þar hélt forseti Íslands erindi og fulltrúar íslenskra verkfræði- og orkufyrirtækja kynntu starfsemi sína. Einnig greindi fulltrúi PCC í Þýskalandi frá góðri reynslu af samstarfi við íslenska aðila í undirbúningi að kísilmálmverksmiðju á Bakka við Húsavík. Að lokum var boðið upp á umræður undir stjórn Guðna A. Jóhannessonar orkumálastjóra.
Fundurinn var vel sóttur en þangað komu aðilar þýskra fyrirtækja sem hafa áhuga á samstarfi við íslensk þekkingarfyritæki, innan Evrópu sem og um allan heim.
Íslensku fyrirtækin sem tóku þátt voru EFLA, Verkís, Orka Energy, Landsvirkjun, Reykjavik Geothermal, Mannvit og systurfyrirtæki þess, GTN.