Markaðsáherslur í ferðaþjónustu kynntar á vinnustofum í Evrópu
Íslandsstofa stóð nýverið fyrir röð funda í borgunum Berlín, Frankfurt, París, Amsterdam, Osló, Stokkhólmi og Kaupmannahöfn. Tilgangur fundanna var að fara yfir markaðsáherslur og upplýsa erlenda ferðasöluaðila um nýjungar í ferðaþjónustu á Íslandi með áherslu á veturinn 2013/2014.
Auk kynninga frá fulltrúum Íslandsstofu fræddu aðilar frá Ferðamálastofu viðstadda um Vakann, gæða- og umhverfiskerfi. Þá sögðu fulltrúar frá markaðsstofum íslensku landshlutanna frá því helsta sem er á döfinni á landsbyggðinni. Að kynningum loknum var boðið upp á stutt fyrirtækjastefnumót þar sem íslensku fyrirtækin funduðu með heimamönnum og kynntu vöruframboðið á Íslandi. Á nokkrum fundanna voru einnig fulltrúar sendiráðanna á viðkomandi stað viðstaddir þar sem þeir sátu fyrir svörum.
Að þessu sinni voru það fyrirtækin Iceland Travel, Iceland Excursion, Reykjavík Excursion, Snæland Travel, Ferðaþjónusta bænda, Mountaineers, Íshestar, WOW air og Icelandair sem tóku þátt í ýmist hluta eða öllum fundunum.
Reynslan hefur sýnt að fundir sem þessir eru góður vettvangur fyrir skoðanaskipti og eflingu tengslanets á milli íslenskra og erlendra söluaðila og var engin undantekning hér á. Vinnustofunum var auk þess gerð ágætis skil á erlendum ferðavefsíðum.
Hér að neðan má sjá myndir frá vinnustofunni í Kaupmannahöfn