Markaðsátakið Inspired by Iceland vel heppnað samstarf
Alls var 700 milljónum varið í markaðsátakið Inspired by Iceland síðastliðið sumar. Það átti stóran þátt í að afstýra yfirvofandi 34 milljarða samdrætti í íslenskri ferðaþjónustu í kjölfar eldgoss í Eyjafjallajökli. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu starfshóps verkefnisins.
Blásið var til markaðsátaksins Inspired by Iceland að frumkvæði samráðshóps stjórnvalda og ferðaþjónustuaðila til að bregðast við fyrirsjáanlegum samdrætti í kjölfar eldgoss í Eyjafjallajökli í apríl 2010. Tilgangur átaksins var að nýta þá athygli sem eldgosið vakti og fylgja henni eftir til að koma þeim skilaboðum til ferðamanna að Ísland væri opið og aðgengilegt þrátt fyrir eldgosið og umfjöllun erlendra fjölmiðla og að nú væri einmitt rétti tíminn til þess að sækja það heim.
Í upphafi árs 2010 stóðu væntingar til að fjöldi ferðamanna til landsins myndi aukast um 10% á milli ára. Eldgos í Eyjafjallajökli og truflanir á flugsamgöngum settu þær væntingar úr skorðum. Í apríl 2010 hafði ferðamönnum fækkað um 17% miðað við apríl 2009. Þá gerðu spár ráð fyrir um 22% samdrætti yfir sumarmánuði 2010, háanna tíma ferðaþjónustu á Íslandi.
Í Inspired by Iceland verkefninu var mikil áhersla lögð á að auka jákvæða umfjöllun um Ísland á erlendri grundu og nýta þannig áhugann á landinu í þágu ferðaþjónustunnar. Þetta var gert með hjálp erlendra almannatengslafyrirtækja, fjölda boðsferða erlendra fjölmiðla til landsins og notkun samfélagsmiðla, auk birtinga á auglýsingum sem sýndu stórbrotna íslenska náttúru í erlendum fjölmiðlum.
Þremur mánuðum eftir að markaðsátakið hófst hafði ferðamönnum fjölgað um 0,6% miðað við sama tíma árið áður. Þegar ferðaárið 2010 var gert upp hafði erlendum ferðamönnum fjölgað um 0,2% frá árinu áður.
Spár um rúmlega 20% samdrátt í komu ferðamanna til landsins gengu því ekki eftir. Alls komu nærri 110.000 fleiri ferðamenn til landsins en ráð var gert fyrir. Ef miðað er að hver ferðamaður skilji eftir sig 310.000 kr. (SAF 2009) þýðir þetta að nærri 34 milljarðar króna rötuðu inn í íslenskt efnahagslíf umfram það sem ellegar hefði orðið.
Jákvæðari viðhorf til Íslands – nýtt Íslandsmet í komu ferðamanna 2011
Í viðhorfsrannsókn sem gerð var í maí og aftur í lok ágúst í þremur helstu markaðslöndum Íslands; Danmörku, Þýskalandi og Bretlandi, kom í ljós að um umtalsverða marktæka breytingu var að ræða fyrir og eftir Inspired by Iceland átakið á þáttum sem snúa að jákvæðni gagnvart landinu sem áfangastað og ferðahug til þess.
Þannig voru 24% Dana jákvæðari í garð Íslands sem áfangastaðar í ágúst en í maímánuði, 48% Breta voru jákvæðari og 25% Þjóðverja. Þá töldu 37% fleiri Bretar það líklegt að þeir myndu ferðast til Íslands í framtíðinni, 32% Þjóðverja og 30% Dana (MMR rannsókn, 2010).
Þessi aukna jákvæðni í garð Íslands hefur skilað sér í því að veruleg fjölgun hefur orðið í komu erlendra ferðamanna á árinu 2011 og löngu ljóst að nýtt met verður sett í komu ferðamanna.
Frekari upplýsingar um veitir Inga Hlín Pálsdóttir, forstöðumaður markaðssóknar hjá Íslandsstofu í síma 824 4375, og Einar Karl Haraldsson, fulltrúi iðnaðarráðherra í síma 840 6888.
Viðhorfskannanir
Viðhorfskönnun í þremur löndum
Í maí, áður en Inspired by Iceland verkefnið fór af stað, var framkvæmd könnun á viðhorfi til Íslands í þremur löndum, Danmörku, Bretlandi og Þýskalandi. Í ágúst var síðan gerð önnur könnun með sömu spurningum. Niðurstöður þeirra eru hér að neðan.
Kannanir á viðhorfi Íslendinga til átaksins:
Capacent Gallup
Capacent Gallup gerði dagana 10. til 18. júní 2010 könnun sem hafði að markmiði að meta þátttöku fólks í átakinu Inspired by Iceland. Um var að ræða netkönnun með 1.192 mnna úrtaki á landinu öllu.
Markaðs og miðlarannsóknir ehf. MMR
Markaðs og miðlarannsóknir ehf. MMR gerðu 8.-10. júní 2010 könnun á viðhorfum og þátttöku almennings í „Inspired by Iceland“ átakinu. Niðurstöðurnar sýna að landsmenn eru mjög jákvæðir í garð þess.
Skýrsla Nordic e-marketing
Nordic e-marketing vann að PPC herferð fyrir verkefnið frá maí 2010-maí 2011 ásamt því að senda út reglulega ePR tilkynningar á fjölmiðla erlendis.
Skýrsla Brandwatch
Brandwatch sá um að fylgjast með árangri á samfélagsmiðlum.
Skýrsla Golden Goose
Golden Goose sá um almannatengsl erlendis er viðkom Iceland Hour og Iceland Inspired ásamt því að skipuleggja sérstaka fjölmiðlaferð á tónleikana.
NÁNARI UPPLÝSINGAR
Nánari upplýsingar um birtingaráætlanir, dæmi um fjölmiðlaumfjöllun og margt fleira er hægt að nálgast á vinnusvæði verkefnisins www.islandsstofa.is/inspired og lykilorð: inspired2010.