Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
12. janúar 2016

Markaðsverkefni um íslenska hestinn til næstu fjögurra ára

Markaðsverkefni um íslenska hestinn til næstu fjögurra ára
Fyrsta áfanga markaðsverkefnis um íslenska hestinn er nú að ljúka með formlegri stefnumótun, og framhald verkefnisins til næstu fjögurra ára að hefjast.

Fyrsta áfanga markaðsverkefnis um íslenska hestinn er nú að ljúka með formlegri stefnumótun, og framhald verkefnisins til næstu fjögurra ára að hefjast. Íslandsstofa sér um framkvæmd verkefnisins og hefur ráðið verkefnisstjóra til starfa til að styrkja það enn frekar í sessi.

Markmiðið er aukin verðmætasköpun

Lagðar hafa verið línur um hvernig auka megi verðmætasköpun á vörum og þjónustu tengdri íslenska hestinum, styrkja ímynd hans í vitund fólks um allan heim og byggja upp sterkt vörumerki. Stefnumörkun liggur fyrir sem og markmið og aðgerðaáætlun til næstu fjögurra ára. Um er að ræða markaðssamstarf sem nýtist heildarhagsmunum í að byggja upp orðspor íslenska hestsins til að leggja grunn að auknum gjaldeyristekjum af sölu á hestinum, vörum og þjónustu.

Ímyndin byggir meðal annars á því að íslenski hesturinn verði þekktur á heimsvísu sem hesturinn sem færir fólk nær náttúrunni; kraftmikill, ævintýragjarn, tilgerðarlaus og ósvikinn hestur sem tekur þér opnum örmum. Stoðir vörumerkisins byggja á tengslum hans við sögu Íslands og menningu, ævintýri og félagsskap, sem og nálægð við náttúruna.

Víðtækt samstarf og samvinna

Stefnt er að víðtæku samstarfi aðila í hestageiranum og tengdum greinum. Aðilum sem rækta íslenska hestinn, framleiða hestavörur eða selja þjónustu tengda hestinum býðst að taka þátt í verkefninu sem og samtökum þessara aðila. Einnig geta aðrir sem eru tilbúnir að taka þátt í verkefninu fjárhagslega, s.s. þjónustuaðilar, birgjar og stofnanir eða félög, gerst aðilar að verkefninu. Þátttakendur taka þátt í að móta áherslur og markaðsaðgerðir og þeir verða kynntir á vefsíðu og í miðlun út á við. Fjármögnun stendur yfir en stjórnvöld leggja verkefninu til 25 milljónir króna árlega í fjögur ár gegn sama framlagi úr greininni.

Verkefnisstjóri ráðinn

Jelena Ohm hefur verið ráðin til starfa hjá Íslandsstofu til að stýra markaðsverkefninu um íslenska hestinn. Jelena er með MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík, diplóma í hestafræðum frá Háskólanum á Hólum og er einnig með reiðkennarapróf. Næstu verkefni hennar eru kynning á verkefninu innanlands og erlendis meðal hagsmunaaðila, byggja upp vörumerkið, og að auka sýnileika íslenska hestsins, einkum á Íslandi. Mun hún meðal annars fara á FEIF ráðstefnunni í Hollandi til að kynna verkefnið í febrúar.  Hún starfar í nánu samstarfi við verkefnisstjórn sem skipuð er tíu aðilum úr hestageiranum og frá ráðuneytum landbúnaðar- og sjávarútvegs og mennta- og menningarmála. 

Sjá nánar video með kynningu á stefnumótun í markaðssamskiptum, á íslensku og á ensku.

Nánari upplýsingar veitir Jelena Ohm, jelena@islandsstofa.is eða í síma 511 4000.

Deila