Mikill áhugi á þýska ferðamarkaðinum
Góð mæting var á fund sem Íslandsstofa stóð fyrir 17. maí sl. um tækifæri og áskoranir á þýska ferðamarkaðinum fyrir íslenska söluaðila með áherslu á menningartengdar ferðir.
Yfir áttatíu manns mættu til að kynna sér hvað annað fagfólk úr ferðaþjónustunni hafði að segja um sína reynslu af þýskum ferðamönnum en aðalræðumaður dagsins var frá þýskri ráðgjafaskrifstofu sem sérhæfir sig í kynningum á landssvæðum, borgum og löndum.
Hann kynnti m.a. hvernig markaðurinn er uppbyggður, hverjir hugsanlegir samstarfsaðilar eru og hvernig best sé að nálgast markaðinn. Í erindi hans kom m.a. annars fram að hann teldi að Ísland væri alls ekki þekkt fyrir menningartengdar ferðir og að þar lægu tækifærin.
Eftir fundinn voru málin rædd yfir léttum málsverði og er ljóst að mikill hugur er í mönnum að sækja inn á þennan markað enda tækifærið fyrir hendi. Ekki er búið að ákveða hvert framhaldið verður en fyrirhugað er að Íslandsstofa muni vinna málið áfram ásamt sendiráði Íslands í Berlín og verða allir þeir sem sóttu fundinn látnir vita um leið og eitthvað er að frétta af þeirri vinnu.
Dagskrá fundarins má sjá hér að neðan og þær kynningar sem haldnar voru:
Davíð Jóhannsson – verkefnisstjóri markaðssóknar, S- og M-Evrópu hjá Íslandsstofu
Rögnvaldur Guðmundsson, Ranns. og ráðgjöf ferðaþjónustunnar
Ingi Gunnar Jóhannsson, leiðsögumaður
Ulrich Keinath, Project 2508
Ruth Bobrich, viðskiptafulltrúi í Berlín