Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
24. mars 2017

Noregskonungur og forseti á málstofu í Bergen um sjávarútveg

Noregskonungur og forseti á málstofu í Bergen um sjávarútveg
Noregskonungur, forseti Íslands og frú, ásamt utanríkisráðherra, sóttu á fimmtudag málstofu um sjálfbærni og verðmætasköpun í sjávarútvegi, sem fram fór í Vil Vite vísindamiðstöðinni í Bergen. Um var að ræða samstarfsverkefni Íslandsstofu, Innovasjon Norge, sendiráðs Íslands í Noregi og Háskólans í Bergen.

Noregskonungur, forseti Íslands og frú, ásamt utanríkisráðherra, sóttu á fimmtudag málstofu um sjálfbærni og verðmætasköpun í sjávarútvegi, sem fram fór í Vil Vite vísindasafninu í Bergen. Um var að ræða samstarfsverkefni Íslandsstofu, Innovasjon Norge, sendiráðs Íslands í Noregi og Háskólans í Bergen.

Viðburðurinn var liður í dagskrá forseta Íslands í opinberri heimsókn hans til Noregs. Flutt voru erindi um nýsköpun, tækifæri tengd áður óveiddum tegundum hafsins og fullnýtingu afurða. Að loknu opnunarávarpi Ninu Broch Mathisen hjá Innovasjon Norge í Bergen, hélt Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra tölu. Jón Ásbergsson, Íslandsstofu, tók því næst við  keflinu auk þess sem hann kynnti aðra ræðumenn á svið. Erindi fluttu; Sveinn Margeirsson (Matís), Matts Johansen (Aker Biomarine) og Øyvind Fylling-Jensen(Nofima). Dr. Ágústa Guðmundsdóttir (Zymetech) og Sturlaugur Sturlaugsson (Skaginn 3X), auk ræðumanna, tóku síðan þátt í panelumræðum sem Erna Björnsdóttir (Íslandsstofu) stýrði.

Vinnustofa um sjálfbæra nýtingu
Í framhaldi málstofunnar var efnt til tvískiptrar vinnustofu um sjálfbæra nýtingu sjávarauðlinda og hátækni. Markmiðið var að horfa til framtíðar og ræða hvernig Ísland og Noregur geti í sameiningu stuðlað að aukinni verðmætasköpun í sjávarútvegi með veiði og vinnslu nýrra tegunda. Umræðum stýrðu annars vegar Berta Daníelsdóttir (Íslenska sjávarklasanum) og og Ole Jørgen Marvik (Innovasjon Norge), og hins vegar Sigríður Þormóðsdóttir (Innovasjon Norge) og Sveinn Margeirsson (Matís). Líflegar umræður spunnust þar sem ýmsar hugmyndir og tækifæri voru rædd, með sköpun nýrra starfa og tekjustrauma að leiðarljósi og  aukna hagsæld til framtíðar.

Deila