Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
28. apríl 2021

Nýjar leiðir út í heim opnast íslenskum fyrirtækjum

Nýjar leiðir út í heim opnast íslenskum fyrirtækjum
Íslandsstofa og Business Sweden hafa gert með sér samkomulag sem tryggir íslenskum fyrirtækjum aðgang að alþjóðlegu neti viðskiptafulltrúa Business Sweden.

Víðtækt samstarf Íslandsstofu og Business Sweden kynnt í dag


Íslandsstofa og systurstofa hennar í Svíþjóð, Business Sweden, hafa gert með sér samkomulag sem tryggir íslenskum fyrirtækjum aðgang að alþjóðlegu neti viðskiptafulltrúa Business Sweden. Frá þessu var greint á ársfundi Íslandsstofu fyrr í dag. 

Viðskiptafulltrúar utanríkisþjónustunnar hafa til þessa veitt íslenskum fyrirtækjum margháttaða þjónustu og greitt götu þeirra í útlöndum en þeir eru til staðar á tólf erlendum mörkuðum. Nú bætist verulega við þann hóp en alls eru 450 starfsmenn á vegum Business Sweden í 42 löndum víða um heim. Hlutverk þeirra er að styðja við framgang sænskra fyrirtækja erlendis með ýmis konar þjónustu á markaði. Með samkomulaginu verður íslenskum fyrirtækjum gert kleift að nýta sér tiltekna þjónustu eins og um sænsk fyrirtæki væri að ræða.

„Sem ráðherra utanríkisviðskipta og norrænnar samvinnu, hef ég mikla trú á gildi þess að styrkja samstarf Norðurlandanna og kynningarstarf útflutningsgreina á alþjóðlegum mörkuðum. Samstarf Íslandsstofu og Business Sweden er gott dæmi um það,“ sagði Anne Hallberg, ráðherra utanríkisviðskipta í Svíþjóð í ávarpi á ársfundi Íslandsstofu fyrr í dag. „Það er mikilvægt að við vinnum náið saman að því að styrkja ímynd Norðurlandanna á heimsvísu. Sterk ímynd hjálpar bæði norrænum fyrirtækjum og gerir Norðurlöndin áhugaverðari valkost fyrir erlenda fjárfesta.“

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra tók undir þau orð: „Við eigum sameiginlega viðskiptahagsmuni með Norðurlöndum enda eru þar tækifæri til að nýta sameiginlega styrkleika til árangurs fyrir öll ríkin. Við höfum átt mjög gott samstarf við Svía á sviði utanríkisviðskipta um langt skeið. Rætur þessa samkomulags liggja í samstarfi Norðurlandanna um rekstur nýsköpunarhúsa í Bandaríkjunum og Asíu, sem er annað skínandi dæmi um kosti norræns samstarfs. Sameinuð erum við öflugri.“

Auk þess að opna dyr fyrir íslensk fyrirtæki út í heim felst einnig í samkomulaginu að stofurnar munu vinna saman í markaðs- og kynningarmálum í sértækum verkefnum þar sem þau eigi sameiginlegra hagsmuna að gæta. 

Pétur Þ. Óskarsson, framkvæmdastjóri Íslandsstofu: „Þetta samkomulag skapar nýja möguleika fyrir íslensk fyrirtæki til þess að hasla sér völl á erlendis. Sú aðstoð sem þeim býðst getur stytt leið þeirra á markað og auðvelda þeim að koma undir sig fótunum í ókunnu umhverfi.“

Frederik Fexe, framkvæmdastjóri Business Sweden: Nú þegar markaðir eru að opnast á ný finna fyrirtæki sig í nýju viðskiptalandslagi eftir heimsfaraldur. Þetta eru kjöraðstæður til þess að hleypa af stokkunum samstarfi Business Sweden og Íslandsstofu til þess að styðja við fyrirtæki til þess að auka sölu á erlendum mörkuðum.“

Samkomulagið hefur þegar tekið gildi og má reikna með að fyrstu íslensku fyrirtækin geti notið góðs af þessu samstarfi innan skamms. Áhugasömum fyrirtækjum er bent á að hafa samband við Karl Guðmundsson fyrir frekari upplýsingar. 


 Sjá einnig ársskýrslu íslandsstofu fyrir árið 2020

Deila