Samstarfssamingur milli Íslands og Rússlands í jarðhitamálum
Iðnaðarráðherra Katrín Júlíusdóttir sótti International Conference on Renewable Energy Sources í Moskvu í boði rússneskra stjórnvalda dagana 25. og 26. október s.l.
Við það tækifæri var undirritaður samstarfssamningur milli Íslands og Rússlands í jarðhitamálum. Með ráðherra í för voru fulltrúar frá Reykjavík Geothermal, Landsvirkjun, Orkustofnun og Nýsköpunarmiðstöð og fluttu þeir allir erindi á ráðstefnunni.
Ráðherra var einnig í hlutverki sínu sem ráðherra ferðamála þegar hún undirritaði samning um samstarf í ferðmálum milli landanna. Var það gert á vel sóttum viðskipta- og kynningarfundi sem haldinn var í húsnæði Verslunarráðs Rússlands. Voru þar mætti fulltrúar Rostourist og verslunarráðsins auk fjölmargra fulltrúa rússneskra fyrirtækja sem hlýddu á greinargóða kynningu ráðherra á möguleikum í ferðaþjónustu á Íslandi. Við það tækifæri fluttu einnig fulltrúar Icelandair og Loftleiða kynningar um starfsemi þessara fyrirtækja í Rússlandi en Loftleiðir reka t.d. viðhaldsstöð á Vukovar flugvelli í Moskvu auk þessa að vera með flugvélar í leigu hjá Air Yakutsk. Hópur íslenskra ferðaþjónustufyrirtækja nýtti sér þetta tækifæri til að eiga fundi með rússnesku fyrirtækjunum auk þess sem skipulagður hafði verið sérstakur vinnufundur í sendiráði Íslands fyrr um daginn þar sem fulltrúar fyrirtækja sem þegar eru að selja og kynna Ísland mættu og hittu íslensku fyrirtækin.
Þau fyrirtæki sem tóku þátt voru eftirfarandi: Arctic Trucks International, Icelandtravel, Icelandair, Loftleidir Icelandic, Isafold Travel, Iceland Excursions-Grayline Iceland, Nordurflug, Reykjavik Excursions, True Iceland og Bjarmaland Travel.
Íslandsstofa annaðist undirbúning og skipulag þessarar viðskiptasendinefndar í samvinnu við sendiráð Íslands í Moskvu og ráðuneyti iðnaðar, orku og ferðmála.