Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
30. apríl 2016

Söguferðaþjónusta í sókn

Söguferðaþjónusta í sókn
Í tilefni af 10 ára afmæli Samtaka um söguferðaþjónustu (SSF) efndu samtökin til sérstaks afmælisþings í samstarfi við Íslandsstofu í Norræna húsinu 29. apríl sl.

Í tilefni af 10 ára afmæli Samtaka um söguferðaþjónustu (SSF) efndu samtökin til sérstaks afmælisþings í samstarfi við Íslandsstofu í Norræna húsinu 29. apríl sl.

Ragnheiður Elín Árnadóttir atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra ávarpaði þingið og meðal framsögumanna voru Rögnvaldur Guðmundsson formaður SSF og Inga Hlín Pálsdóttir forstöðumaður ferðaþjónustu og skapandi greina hjá Íslandsstofu. Rögnvaldur rakti sögu samtakanna og velti upp sóknarfærum í starfsemi þeirra og Inga Hlín sagði frá markaðssetningu Íslandsstofu erlendis á sviði ferðaþjónustu og skapandi greina og greindi frá miklum áhuga erlendra ferðamanna á íslenskri menningu og sögu. Sagði hún áhersluna í markaðssetningu ferðaþjónustunnar á árum áður aðallega hafa verið á íslenska náttúru en á undanförnum árum hefðu menning og saga sífellt orðið fyrirferðameiri í markaðssetningu Íslands sem áfangastaðar eins og ný herferð Íslandsstofu „Iceland Academy“ bæri vitni um.

Afmælisþingið var vel sótt og í pallborðsumræðum fóru fram mjög lífleg og uppbyggileg skoðanaskipti og vangaveltur. Ljóst er að mikill áhugi er á að efla þátt söguferðaþjónustunnar með því að gera hlut íslensks sögu- og menningarfs enn sýnilegri í markaðsstarfinu. Létu margir fundarmenn í ljós þá skoðun að þeir hefðu í störfum sínum skynjað gríðarlegan áhuga erlendra ferðamanna á íslenskum sögu- og menningararfi. Einnig kom fram sú skoðun að bagalegt væri að erlendum ferðamönnum stæði ekki til boða að skoða íslensku handritin, jafn merkilegt framlag og þau væru til heimsbókmenntanna, á því þyrfti að gera bragarbót. Í lokin komu fram skemmtilegar og skondnar vangaveltur um söguna sem fræðigrein og hvernig sagnfræðingar og aðilar í söguferðaþjónustu gætu hagað samstarfi sínu. Þannig gæti fræðileg nálgun og saga sem ferðaþjónustuafþreying átt góða samleið.

Deila