Stafræna tónlistarhátíðin Live from Reykjavik
Iceland Airwaves boðar til tónlistarhátíðarinnar Live from Reykjavík dagana 13. og 14. nóvember, í samstarfi við Íslandsstofu, RÚV, Reykjavíkurborg, Icelandair, Ölgerðina Einstök og Landsbankann.
Á hátíðinni kemur fram blanda af íslensku tónlistarfólki sem vakið hefur athygli utan landssteinanna, ásamt yngri vonarstjörnum íslenskrar tónlistar. Tónleikarnir verða aðgengilegir á miðlum RÚV, en einnig verður seldur aðgangur að streymi frá hátíðinni um allan heim í gegnum vefinn Dice.fm. Samhliða hátíðinni mun ÚTÓN standa fyrir stafrænni ráðstefnu fyrir áhrifafólk úr tónlistargeiranum til að kynna íslenska tónlist og listamenn.
Hér má skoða dagskrána
Þetta er í fyrsta skipti sem boðið er upp á svo viðamikla tónlistardagskrá frá Íslandi í gegnum netið um allan heim. Tilgangurinn er að styðja við sköpun og starf íslenskra tónlistarmanna, búa til reynslu og þekkingu í streymi sem nýtast mun íslenska tónlistargeiranum til framtíðar og efla markaðs- og kynningarstarf íslenskrar tónlistar á erlendum vettvangi.
"Nú er allt okkar fremsta tónlistarfólk á landinu á sama tíma en ekki á tónleikaferðalagi um heiminn. Það er algjört einsdæmi að geta stillt upp svo öflugri dagskrá á Íslandi og það er tækifæri sem við vildum ekki láta okkur renna úr greipum," segir Ísleifur Þórhallsson, framkvæmdastjóri Iceland Airwaves.
Tónleikar hátíðarinnar munu fara fram á tónleikastöðum sem hafa verið áberandi í dagskrá Iceland Airwaves frá upphafi, svo sem Listasafni Reykjavíkur, Gamla bíói, og Iðnó.
Styrktaraðilar hátíðarinnar eru RÚV, Íslandsstofa, Reykjavíkurborg, Icelandair, Landsbankinn, Einstök Ölgerð, Tónlistarborgin Reykjavík, Record in Iceland, Listahátíð í Reykjavík og ÚTÓN.
Íslensk tónlist er einn af þremur áhersluþáttum í markaðsaðgerðum „Ísland – saman í sókn“ sem koma til framkvæmda á næstunni. Efni sem framleitt verður í tengslum við hátíðina verður nýtt til kynningar á íslenskri tónlist og tónlistarstarfsemi og Íslandi sem áfangastað.