Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
21. október 2020

Stafræna tónlistarhátíðin Live from Reykjavik

Stafræna tónlistarhátíðin Live from Reykjavik
Íslandsstofa er einn af styrktaraðilum tónlistarhátíðarinnar Live from Reykjavik sem haldin verður 13. og 14. nóvember.

Iceland Airwaves boðar til tónlistarhátíðarinnar Live from Reykjavík dagana 13. og 14. nóvember, í samstarfi við Íslandsstofu, RÚV, Reykjavíkurborg, Icelandair, Ölgerðina Einstök og Landsbankann.

Á hátíðinni kemur fram blanda af íslensku tónlistarfólki sem vakið hefur athygli utan landssteinanna, ásamt yngri vonarstjörnum íslenskrar tónlistar. Tónleikarnir verða aðgengilegir á miðlum RÚV, en einnig verður seldur aðgangur að streymi frá hátíðinni um allan heim í gegnum vefinn Dice.fm. Samhliða hátíðinni mun ÚTÓN standa fyrir stafrænni ráðstefnu fyrir áhrifafólk úr tónlistargeiranum til að kynna íslenska tónlist og listamenn. 
Hér má skoða dagskrána

Þetta er í fyrsta skipti sem boðið er upp á svo viðamikla tónlistardagskrá frá Íslandi í gegnum netið um allan heim. Tilgangurinn er að styðja við sköpun og starf íslenskra tónlistarmanna, búa til reynslu og þekkingu í streymi sem nýtast mun íslenska tónlistargeiranum til framtíðar og efla markaðs- og kynningarstarf íslenskrar tónlistar á erlendum vettvangi.

"Nú er allt okkar fremsta tónlistarfólk á landinu á sama tíma en ekki á tónleikaferðalagi um heiminn. Það er algjört einsdæmi að geta stillt upp svo öflugri dagskrá á Íslandi og það er tækifæri sem við vildum ekki láta okkur renna úr greipum," segir Ísleifur Þórhallsson, framkvæmdastjóri Iceland Airwaves.

Tónleikar hátíðarinnar munu fara fram á tónleikastöðum sem hafa verið áberandi í dagskrá Iceland Airwaves frá upphafi, svo sem Listasafni Reykjavíkur, Gamla bíói, og Iðnó.

Styrktaraðilar hátíðarinnar eru RÚV, Íslandsstofa, Reykjavíkurborg, Icelandair, Landsbankinn, Einstök Ölgerð, Tónlistarborgin Reykjavík, Record in Iceland, Listahátíð í Reykjavík og ÚTÓN.

Íslensk tónlist er einn af þremur áhersluþáttum í markaðsaðgerðum „Ísland – saman í sókn“ sem koma til framkvæmda á næstunni. Efni sem framleitt verður í tengslum við hátíðina verður nýtt til kynningar á íslenskri tónlist og tónlistarstarfsemi og Íslandi sem áfangastað. 


Deila