Styrkleikar Íslands kynntir í verkefninu Ísland - Saman í sókn
Það er markaðsverkefni fyrir íslenska ferðaþjónustu sem hluti af efnahagsaðgerðum stjórnvalda vegna COVID-19.
Upptaka frá fundinum
Upptaka er nú aðgengileg hér á vef Íslandsstofu en mikill áhugi reyndist á fundinum enda málið brýnt fyrir land og þjóð.
Verkefnið verður starfrækt á völdum erlendum mörkuðum, það er fjármagnað af íslenska ríkinu en framkvæmd verkefnisins er í höndum Íslandsstofu. Markmið þess er að auka eftirspurn eftir íslenskri ferðaþjónustu, styrkja ímynd Íslands sem áfangastaðar og viðhalda samkeppnisstöðu íslenskrar ferðaþjónustu og annarra útflutningsgreina.
Skjót viðbrögð
Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, sagði að ríkisstjórn Íslands hafi ákveðið um leið og fyrsta Covid-smitið kom upp á Íslandi að verja allt að einum og hálfum milljarði króna til að hefja öfluga markaðssókn á lykilmarkaðssvæðum Íslands. Byggja þurfi upp öfluga ferðaþjónustu að nýju. Þórdís benti á að ferðaþjónustan hafi verið 8-9% af landsframleiðslu Íslands á undanförnum árum og skilað 35-40% af útflutningstekjum þjóðarbúsins. Miklir efnahagslegir hagsmunir séu því í húfi en samkeppni um ferðamenn verði hörð.
Verkefnið verður unnið í samræmi við framtíðarsýn og leiðarljós íslenskrar ferðaþjónustu til 2030 sem ber yfirskriftina „Leiðandi í sjálfbærri þróun“ og langtímastefnu stjórnvalda og atvinnulífs fyrir íslenskan útflutning.
Íslandi haldið í kastljósinu
Sigríður Dögg Guðmundsdóttir, fagstjóri ferðaþjónustu hjá Íslandsstofu, stýrði fundi og flutti ávarp við opnun hans. Sagði hún m.a. að nú væru sögulegir tímar og framtíðin óútreiknanleg. Forsendur fyrri spámódela væru brostnar en undanfarnar vikur og mánuði hafi starfsfólk Íslandsstofu lagt áherslu á að viðhalda áhuga fólks á áfangastaðnum Íslandi með ýmsum aðgerðum. Til dæmis að sýna Ísland í öðru ljósi á samfélagsmiðlum, með því að hlúa að mikilvægum viðskiptatengslum við erlenda söluaðila Íslandsferða og miðla sögum frá Íslandi til erlendra fjölmiðla til að stuðla að upplýstri umfjöllun um landið.
Samhliða hafi verið unnið hörðum höndum að undirbúningi á markaðsverkefninu Ísland – Saman í sókn. Það sé í okkar höndum að virkja styrkleika Íslands á næstu mánuðum þegar áfangastaðir um allan heim munu heyja harða baráttu um þá ferðamenn sem byrja að ferðast þegar ferðatakmörkunum verður smám saman aflétt.
Verkefnið framundan
Lenny Stern, stjórnandi og einn eigenda hjá alþjóðlegu auglýsingastofunni M&C Saatchi, fjallaði um breyttan heim og nýjar þarfir ferðamanna. M&C Saatchi er alþjóðleg auglýsingastofa sem vann nýverið í samstarfi við íslensku auglýsingastofuna Peel útboð á markaðsverkefninu sem var til umfjöllunar á fundinum. M&C Saatchi og Lenny hafa komið að fjölda vel heppnaðra þegar kemur að endurmörkun vörumerkja vegna breyttra aðstæðna. Lenny hefur líka komið að fjölda kosningabarátta víða um heiminn, m.a. fyrir Bill Clinton og Barack Obama.
Daði Guðjónsson, fagstjóri neytendamarkaðssetningar hjá Íslandsstofu, kynnti Ísland verkefnið fyrir hagaðilum og hvatti áhugasama til að taka þátt í að móta það á næstu vikum með Íslandsstofu. Þeir sem vilja taka þátt og sitja í markaðshóp verkefnisins geta skráð sig hér fyrir neðan.
Þá kynnti Daði helstu niðurstöður nýrrar markaðskönnunar MMR fyrir Íslandsstofu sem sýnir að það er takmarkaður áhugi á ferðalögum næstu mánuði á sterkustu mörkuðum Íslands. Helstu niðurstöður könnunarinnar má nálgast hér að neðan. Á næstu vikum verða svo kynntar frekari greiningar fyrir einstök markaðssvæði. Hér má skoða kynningu Daða