Útvistun - Er Ísland samkeppnishæft?
Fulltrúi bandaríska ráðgjafafyrirtækisins Scott Madden Inc. kom til landsins á dögunum og hélt kynningu á niðurstöðum úttektar á samkeppnishæfni Íslands varðandi alþjóðlega útvistun.
Íslandsstofa hafði frumkvæði að því að fá sérfræðinga fyrirtækisins til að greina styrkleika og mögulega sérstöðu Íslands með tilliti til útvistunar verkefna erlendra fyrirtækja á sviði þjónustuiðnaðar (Shared Services and Outsourcing). Einnig var leitað svara við því hvort tækifæri séu til að laða til landsins beina erlenda fjárfestingu þessu tengda.
Scott Madden Inc. hefur mikla reynslu af úttektum af þessu tagi en verkefnið fólst m.a. í því að taka stöðuna hér á landi með fjölda viðtala ásamt því að bera saman Ísland og fjögur önnur lönd sem eru mjög áberandi í alþjóðlegri útvistun.
Afrakstur verkefnisins er skýrsla sem inniheldur m.a. styrkleika og veikleika Íslands, upplýsingar um þau tækifæri sem hér felast og tillögur að næstu skrefum.
Þátttakendum í úttektinni og öðrum hagaðilum var boðið til kynningar á niðurstöðum verkefnisins og var gerður góður rómur að framsetningu ráðgjafans sem þótti afar skýr og hnitmiðuð. Skýrslan er aðgengileg á vef Íslandsstofu og eru áhugasamir hvattir til þess að kynna sér efnið vel.