Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
11. júlí 2021

Væntingar um bókanir og ferðavilji að aukast

Væntingar um bókanir og ferðavilji að aukast
Niðurstöður könnunarinnar benda til þess að bókanir frá Norður Ameríku séu fyrr að koma inn en frá öðrum lykilmörkuðum.

Aukin bjartsýni virðist ríkja meðal erlendra ferðaheildsala sem bjóða ferðir til Íslands samkvæmt nýrri könnun sem Íslandsstofa gerði í júní. 31% svarenda sögðu bókanir á ferðum til Íslands þegar byrjaðar að taka við sér og önnur 39% telja að það muni gerast í sumar eða haust. Þá telja 58% að bókanir á ferðum til Íslands árið 2022 verði sambærilegar og áður en landamæri fóru að lokast.

Sigríður Dögg Guðmundsdóttir, fagstjóri ferðaþjónustu hjá Íslandsstofu segir niðurstöður könnunarinnar vissulega gefa tilefni til bjartsýni en hún beri þess líka merki að ferðaþjónustan á Íslandi muni glíma við afleiðingar COVID-19 faraldursins næstu misserin.

„Það er jákvætt að bókanir virðast vera farnar að skila sér og að fimmtungur svarenda segja að þeirra viðskiptavinir séu þegar farnir að ferðast til landsins. Um fjórðungur gerir þó ekki ráð fyrir því að fá inn bókanir á þessu ári og rúm 30% segjast ekki sjá fyrir sér að þeirra viðskiptavinir verði farnir að ferðast til landsins fyrr en á næsta ári. Þannig að við þurfum að vera raunsæ og stilla væntingum í hóf. Það er líka ljóst að samkeppni milli áfangastaða fer ört harðnandi þegar ferðavilji eykst og við munum þurfa að hafa fyrir hlutunum.“

Niðurstöður könnunarinnar benda til þess að bókanir frá Norður Ameríku séu fyrr að koma inn en frá öðrum lykilmörkuðum og að þróunin þar gæti orðið hægari en á nærmörkuðum, þ.e. Norðurlöndunum, Mið-og Suður Evrópu og Bretlandseyjum. Könnunin bendir einnig til þess að fjarmarkaðir verði mun lengur að taka við sér.

Sigríður Dögg segir Íslandsstofu fylgjast vel með gangi mála á helstu markaðssvæðum og aðlaga aðgerðir í samræmi við þróun þar.

„Við njótum þess núna að Ísland var á undan flestum öðrum löndum að létta ferðatakmörkunum og 24. júní hófst ný herferð á vegum markaðsverkefnisins Ísland - Saman í sókn sem mun standa þangað til í byrjun september.”

Sjá niðurstöður könnunarinnar  

Deila