Vannýtt tækifæri í markaðssetningu Íslands í Japan?
Helstu niðurstöður eru þær að Japanir eru almennt jákvæðir í garð allra norrænu borganna. Hins vegar er þekking þeirra á borgunum fremur lítil, sem bendir til þess að viðhorfin séu byggð á sögusögnum, fremur en eiginlegri þekkingu eða staðreyndum.
Í ljós kom að Reykjavík er sú borg sem Japanir vita hvað minnst um og fékk borgin einnig lægstu einkunnina hvað ímynd varðar. Kaupmannahöfn mældist með jákvæðustu ímyndina en einnig með hæstu vitundina af borgunum fimm.
Það sem er sérstaklega eftirtektarvert er, að ef einungis er litið til svara frá þeim sem þegar höfðu heimsótt borgirnar þá mælist Reykjavíkur með jákvæðustu ímyndina af öllum Norðurlöndunum, eða 9 stig af 10. Svo virðist því sem aukin þekking á borginni hafi haft mjög jákvæð áhrif á viðhorf þeirra.
Einnig kom fram að 22,5% svarenda myndu helst vilja heimsækja Reykjavík af áfangastöðunum fimm, og vermdi borgin þar annað sætið á eftir Helsinki. Þegar spurt var hvað viðkomandi datt fyrst í hug þegar þeir heyrðu minnst á Reykjavík voru algengustu svörin Norðurljós, Ísland, Hallgrímskirkja, eldfjall, heitar laugar, náttúra o.fl. Þá tengdu svarendur hugtökin örugg, ánægjuleg og vinaleg helst við Reykjavík.
Þetta bendir til þess að mögulega séu mörg vannýtt tækifæri sem vert er að skoða í markaðssetningu á Íslandi og hinum Norðurlöndunum í Japan.
Könnunin var framkvæmd á netinu af finnskum fagaðilum og eru niðurstöðurnar byggðar á 1500 svörum.
Könnunina í heild má skoða hér: Nordic City Images