Vel heppnuð þátttaka í Nordic Game 2011
CAOZ og Plain Vanilla hlutu þróunarstyrki á tölvuleikjaráðstefnunni Nordic Game Conference 2011 sem lauk í Malmö á fimmtudag. Þá voru fyrirtækin CCP, Gogogic og Fancy Pants Global tilnefnd til Nordic Game-verðlauna.
Níu tölvuleikjafyrirtæki voru með á sameiginlegum bás IGI (Icelandic Gaming Industry) og Íslandsstofu. Er samdóma álit þeirra að ráðstefnan hafi heppnast mjög vel, að sögn Aðalsteins H. Sverrissonar hjá Íslandsstofu.
„Íslensku fyrirtækin vöktu verðskuldaða athygli á sýningunni, bæði vegna fjölda þeirra og fjölbreytni leikjanna sem þau framleiða,“ segir Sigurlína V. Ingvarsdóttir, formaður IGI. „Þróunarstyrkirnir til CAOZ og Plain Vanilla endurspegla trú norræna leikjaiðnaðarins á þennan geira á Íslandi þar sem fjöldi smærri fyrirtækja og sprota starfar við hlið eldri og stærri aðila eins og CCP og Betware.“ Fancy Pants Global hlaut tvær tilnefningar fyrir leik sinn Maxímús Musicus, í flokki „Best childrens game“ og „Best handheld“. CCP var tilnefnt í flokki „Most artistic achievement“ fyrir EVE Online Character Creator og Gogogic hlaut tilnefningu í flokknum „Game of the year“ fyrir leik sinn Vikings of Thule.
Nordic Game er hvort tveggja sýning og ráðstefna, þar sem aðaláherslan er lögð á kynningu á fyrirtækjum innan tölvuleikjaiðnaðarins. Viðburðurinn laðar að sér fjárfesta, dreifingaraðila og fólk í faginu í leit að tækifærum hjá tölvuleikjafyrirtækjum. Íslensku fyrirtækin sem tóku þátt í Nordic Game 2011 eru Betware, Cadia, CCP, Dexoris, Fancy Pants Global, Gogogic, Locatify, Mindgames og PlainVanilla.