Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
24. apríl 2018

Vel sóttur fundur um vottanir og upprunamerki matvæla

Vel sóttur fundur um vottanir og upprunamerki matvæla
Íslandsstofa hélt fund þann 18. apríl sl. um vottanir og upprunamerkingar matvæla í markaðsstarfi erlendis.

Á fundinum var kynnt greining á vottunum og upprunamerkjum matvæla sem Íslandsstofa lét nýverið framkvæma en talin var þörf á að skoða hvort styrkja megi stöðu íslenskra matvæla í markaðssetningu á erlendum mörkuðum með vottunum og notkun á upprunamerkingum. 

Oddný Anna Björnsdóttir var ráðin til að framkvæma greininguna sem miðar að því að veita íslenskum aðilum yfirsýn yfir það sem er í boði og auðvelda ákvarðanatöku um að fá vottun eða nýta upprunamerki í markaðssetningu. Á fundinum kynnti Oddný greininguna, fór yfir helstu skilgreiningar og hugtök sem tengjast vottunum, fjallaði um algengar vottanirnar og upprunamerki á áherslumörkuðum og greindi frá núverandi stöðu í notkun þeirra hjá íslenskum matvælafyrirtækjum. Þá fjallaði hún einnig um hvar tækifærin liggja í notkun vottana og upprunamerkja fyrir íslensk matvælafyrirtæki í markaðsstarfi erlendis. Sjá kynningu Oddnýjar.

Á fundinum voru einnig sagðar tvær reynslusögur úr matvælageiranum. Jes Mosgaard, eigandi Mosgaard Whisky í Danmörku sagði frá sinni reynslu í notkun á lífrænni vottun. Jes er frumkvöðull og stofnaði Mosgaard Whisky árið 2015 þar sem hann framleiðir lífrænt viskí og gin. Í erindi sínu fjallaði hann um framleiðsluna, lífræna markaðinn í Danmörku og áskoranir og tækifæri í lífrænni framleiðslu. Sjá kynningu Jes Mosgaard.

Svavar Halldórsson framkvæmdastjóri Icelandic Lamb fjallaði um hvernig hægt er að skapa sér sérstöðu með notkun vottana og upprunamerkja en Icelandic Lamb hefur farið í mikla greiningarvinnu á því hvaða vottanir henta best fyrir íslenskt lambakjöt og af hverju. Þá sagði hann frá íslenska upprunamerkinu, verndun afurðaheita, en Icelandic Lamb er fyrsta íslenska afurðin sem fær þetta upprunamerki. Sjá kynningu Svavars.

Að erindum loknum var fundargestum boðið að taka þátt í hringborðsumræðum um fjögur málefni: vottanir og upprunamerki í sjávarútvegi og fiskeldi, lífræna vottun, íslensk upprunamerki og framtíðarsýn íslenskrar matvælaframleiðslu. Góð þátttaka var í hringborðsumræðum og munu niðurstöðurnar nýtast í endanlegri skýrslu og leiðbeiningum sem Íslandsstofa mun gefa út.

Nánari upplýsingar um fundinn veita Guðný Káradóttir, gudny@islandsstofa.is og
Bryndís Eiríksdóttir, bryndis@islandsstofa.is, eða í síma 511 4000. 

Hér má sjá myndbandsupptöku frá fundinum

Deila