Verðandi matreiðslumeistarar í Barcelona kynnast íslenska þorskinum
Kynning á söltuðum íslenskum þorski var haldin í CETT, sem er matreiðslu-, hótel- og ferðamálaskóli í Barcelona og er í hópi virtari skóla á þessu sviði í Katalóníu á Spáni. Kynningin er hluti af markaðsverkefninu „Saltaðar þorskafurðir í Suður Evrópu“ sem Íslandsstofa hefur stýrt undanfarin ár í samstarfi við framleiðendur og söluaðila á söltuðum þorski.
Alls fengu 137 nemar við skólann að kynnast íslenska þorskinum í þriggja tíma dagskrá. Paco Perez, katalónskur Michelin kokkur, sá um sýnikennslu á nokkrum mismunandi réttum úr íslenskum þorski. Paco Perez, sem ræður ríkjum á veitingastaðnum Miramar í nágrenni Barcelona, náði vel til nemenda skólans en veitingastaðir hans hafa samtals fimm Michelin stjörnur.
Kristinn Björnsson frá Íslandsstofu fjallaði um íslenska þorskinn, veiðar og vinnslu, en kom einnig inn á mismunandi vinnsluaðferðir og afurðaflokka á spænska markaðnum. Astrid Helgadóttir frá aðalkjörræðisskrifstofunni í Barcelona hélt einnig stutt ávarp um Ísland við upphaf kynningarinnar. Næstu tvær vikur eftir kynningardaginn voru helgaðar söltuðum þorski frá Íslandi og voru réttir á boðstólum bæði á veitingastað og kaffiteríu skólans sem opin eru fyrir almenningi.
Eitt af markmiðum ársins 2015 í markaðsverkefninu var að þróa fræðsluverkefni fyrir kokkaskóla. Þetta markmið náðist á síðasta ári með kynningum í þremur kokkaskólum á Spáni (Madrid, Valencia og Bilbao) og einum í Portúgal (Lissabon). Núna hafa ungir matreiðslunemar í Barcelona bæst í þennan góða hóp. Samtals hafa því rúmlega 400 nemendur fengið kynningu á leyndarmálinu á bak við íslenska þorskinn á þessum fimm kynningum. Eitt af markmiðum verkefnisins fyrir 2016 er að þróa þessar kynningar í kokkaskólunum enn frekar til að efla útkomuna. Þetta verður gert með kynningum í nýjum kokkaskólum sem og eftirfylgni við hina skólana.