Vestnorden 2021 fram úr björtustu vonum
Vestnorden ferðakaupstefnan var haldin í 36. skipti dagana 5.- 7. október sl. á Reykjanesinu. Það má með sanni segja að kaupstefnan hafi farið fram úr björtustu vonum þeirra er að henni komu, enda fyrsti viðburður sinnar tegundar á Íslandi, í persónu, í 18 mánuði.
Kaupstefnan var haldin í Hljómahöllinni í Reykjanesbæ og voru þar komin 134 fyrirtæki frá Íslandi, Grænlandi og Færeyjum sem hittu 177 kaupendur sem hingað til lands voru komnir hvaðanæva að úr heiminum. Áttu kaupendur og seljendur samtals 3400 fundi þá tvo daga sem kaupstefnan stóð yfir.
Einn þáttur í Vestnorden eru ferðir sem kaupendum býðst að fara í áður en kaupstefnan hefst og í ár komu rúmlega 100 kaupendur til landsins nokkrum dögum áður til að kynna sér það helsta sem landshlutarnir hafa upp á að bjóða og var mikil ánægja meðal kaupenda. Á meðan á kaupstefnunni stóð buðu ferðaþjónustufyrirtæki af svæðinu bæði kaupendum og seljendum í stuttar ferðir um Reykjanesið til að kynna áfangastaðinn og mæltist það vel fyrir enda margt nýtt að sjá og upplifa og var öllum boðið í Bláa Lónið í lok ferðanna.
Það var góður andi sem sveif yfir Hljómahöllinni og ekki annars að vænta en að Ísland verði á kortinu hjá mörgum á komandi misserum.
Hér að neðan má sjá nokkrar myndir frá viðburðinum.