Vestnorden verður haldin á Norðurlandi 2018
Einn stærsti viðburður í ferðaþjónustu sem haldinn er á Íslandi, Vestnorden ferðakaupstefnan, verður á Akureyri 2. - 4. október 2018. Vestnorden er haldin af Ferðamálasamtökum Norður-Atlantshafsins (NATA), sem er samstarfsvettvangur Íslands, Færeyja og Grænlands á sviði ferðamála. Vestnorden er haldin til skiptis af löndunum þremur, þar af annað hvert ár á Íslandi. Íslandsstofa er framkvæmdaraðili Vestnorden þegar hún er haldin á Íslandi.
Ferðakaupstefnan verður í þetta sinn haldin í góðu samstarfi við Markaðsstofu Norðurlands, Akureyrarbæ, Air Iceland Connect og aðra hagsmunaaðila enda um stóran viðburð að ræða en búast má við um 600-700 manns í tengslum við viðburðinn.
Vestnorden fer fram í 33 skipti og hefur hún haldið gildi sínu sem mikilvægur vettvangur fyrir íslenska ferðaþjónustu að sögn Ingu Hlínar Pálsdóttur, forstöðumanns sviðs ferðaþjónustu og skapandi greina hjá Íslandsstofu. „Á Vestnorden hitta ferðaþjónustufyrirtæki í þessum þremur löndum ferðaheildsala hvaðanæva að úr heiminum sem selja ferðir til Íslands eða hafa áhuga á því hefja sölu. Ferðaþjónustufyrirtækjum gefst þarna kostur á að mynda verðmæt viðskiptasambönd eða styrkja þau sem fyrir eru. Einnig fá löndin tækifæri til að kynna áherslur í markaðssetningu á sínum áfangastöðum. Það er alltaf lærdómsríkt að koma á Vestnorden og áhugavert að sjá hvernig ferðaþjónustan er að þróast.“
„Íslandsstofa hlakkar til árangursríks og ánægjulegs samstarf við alla aðila við undirbúning og framkvæmd ferðakaupstefnunnar,“ segir Inga Hlín.