Viðskiptasendinefnd frá Íslandi gerði góða ferð til Kína
Í tilefni þess að í dag 1. júlí tekur gildi fríverslunarsamningur milli Íslands og Kína skipulagði Íslandsstofa í liðinni viku, í samstarfi við íslenska sendiráðið í Kína og samtök heildsala á matvörumarkaði í Kína (CAWA), viðskiptasendinefnd íslenskra matvælaframleiðenda til Peking dagana 25.-28. júní. Megináhersla var lögð á að koma á framfæri íslenskum sjávarafurðum og kynna ábyrgar fiskveiðar Íslendinga. Sendinefndin naut góðs af veru utanríkisráðherra, Gunnars Braga Sveinssonar í borginni en hann átti fundi með fjölmörgum háttsettum kínverskum aðilum í heimsókn sinni til Kína.
ÞURRKUN GEFUR TÆKIFÆRI
Fimmtudaginn 26. júní kynnti sendinefndin sér starfsemi fiskmarkaða og fundaði með forsvarsmönnum þeirra, ásamt því að skoða hvernig staðið er að smásölu á hágæða innfluttri matvöru. Í Kína er kæli- og frystitækni skammt á veg komin og því er þurrkun á fiskafurðum og öðrum matvælum mjög algeng. Á fiskmarkaðinum sem heimsóttur var mátti sjá mikið úrval alls kyns þurrkaðra afurða, m.a. sæbjúgu og sundamaga sem í dag er flutt út frosið frá Íslandi. Algengt er að sæbjúgum og sæeyrum sé pakkað í myndarlegar gjafaöskjur og seldar m.a. á fínustu hótelum í Kína á mjög háu verði. Umbúðir skipta Kínverja miklu máli og geta Íslendingar örugglega þróað afurðir sínar enn frekar til að mæta markaðskröfum og fá þannig hærra verð fyrir sínar afurðir.
SAMTÖK HEILDSALA TILBÚIN TIL AUKIN SAMSTARFS
Á upplýsingafundi sem haldinn var fyrir íslensku fyrirtækin kynnti Pétur Jang-Li, viðskiptafulltrúi í sendiráði Íslands í Kína, ýmis hagnýt atriði sem snúa að innflutningi á sjávarafurðum og öðrum matvælum frá Íslandi til Kína, skráningar og leyfismál sem fyrirtækin þurfa að hafa í lagi áður en innflutningur getur hafist.
Fulltrúi CAWA veitti innsýn í möguleika og tækifæri á kínverska markaðinum og fagnaði komu viðskiptasendinefndarinnar, en hún er liður í samstarfssamningi (MOU) sem Íslandsstofa hefur gert við CAWA. Samtökin eru að setja á fót rafræna viðskiptagátt þar sem seljendur geta kynnt afurðir sínar og selt. Þá taldi fulltrúi samtakanna mikilvægt að þróa afurðirnar og umbúðir í takt við kröfur Kínverja sem og að kenna Kínverjum eldamennsku hágæðaafurða sem vaxandi eftirspurn er eftir í Kína. Birgir Stefánsson sem er í stjórn "Made in Iceland" verkefnisins, sem íslensk fyrirtæki sem selja afurðir sínar í Kína taka þátt í, sagði frá reynslu sinni af því að starfa á markaðinum við sölu íslenskra sjávarafurða.
CAWA samtökin standa fyrir alls kyns umbótastarfi í Kína, koma á stöðlum til að auka matvælaöryggi, standa fyrir þjálfun og rannsóknum, auk þess að taka þátt í alþjóðasamstarfi og eru aðilar að World Union of Wholesale Markets
FJÖLMENNT VIÐSKIPTAÞING - MIKILL ÁHUGI Á ÍSLENSKUM AFURÐUM
Utanríkisráðherra ávarpaði viðskiptaþing sem um 60 kínverskir innkaupaaðilar á matvælum sóttu. Þingið var skipulagt í samstarfi við heildsölusamtök fyrirtækja sem versla með landbúnaðarafurðir CAWA – China agricultural wholesale markets association – en meðlimir þess eru um 300 og er velta þeirra um 100 milljónir RMB eða tæplega 2 milljarðar íslenskra króna. Guðný Káradóttir forstöðumaður matvælasviðs hjá Íslandsstofu kynnti sérstöðu íslensks sjávarútvegs og síðan kynntu fyrirtækin starfsemi sína og áttu fundi með kínverskum kaupendum. Í sendinefndinni voru fulltrúar eftirfarandi fyrirtækja; Icelandic Group, Arctic Fish, G. Ingason, Hafnarnes-VER, Matfugl, KS kjötvinnsla, Icelandic Water Holding, Life Iceland og IS Seafood.
EIMSKIP TEKUR ÞÁTT Í UPPBYGGINGU HAFNARSVÆÐISINS Í QINGDAO
Starfsmenn Íslandsstofu áttu þess kost að kynna sér starfsemi Eimskips í Qingado. Þar er fyrirtækið með umfangsmikla flutningastarfsemi, reka þar stóra frystigeymslu og eru með 240 starfsmenn. Eimskip mun taka þátt í kæli- og frystivæðingu hafnarinnar í samstarfi við hafnaryfirvöld á svæðinu. Það mun einnig skipta máli fyrir þróun kínverska markaðarins en ljóst er að með stækkandi millistétt mun eftirspurn eftir hágæða vöru sem þarfnast góðrar meðhöndlunar aukast verulega. Fríverslunarsamningurinn mun jafnframt auka möguleika Íslendinga á að nýta sér þau tækifæri sem markaðurinn býður upp á.
Nánari upplýsingar um viðskiptasendinefndina sem Íslandsstofa skipulagði og tengslin við Kína veita Þorleifur Þór Jónsson, viðskiptasendinefndir, thorleifur@islandsstofa.is, gsm 824 4384 og
Guðný Káradóttir, forstöðumaður sjávarútvegs- og matvælasviðs, gudny@islandsstofa.is, gsm 693 3233.