Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
26. apríl 2016

Vöxtur í útflutningi milli Íslands og Kína

Vöxtur í útflutningi milli Íslands og Kína
Áberandi vöxtur í útflutningi frá Íslandi til Kína er á meðal þess sem kom fram hjá Pétri Yang viðskiptafulltrúa í Sendiráði Íslands í Kína á kynningarfundi sem var haldinn nýlega um tækifæri í samstarfi þjóðanna.

Greinir fjölda tækifæra í samstarfi Íslands og Kína

Áberandi vöxtur í útflutningi frá Íslandi til Kína er á meðal þess sem kom fram hjá Pétri  Yang viðskiptafulltrúa í Sendiráði Íslands í Kína á kynningarfundi sem var haldinn nýlega um tækifæri í samstarfi þjóðanna. Íslandsstofa varð vör við mikinn áhuga fyrirtækja á að sækja ráðgjöf hjá Pétri á meðan hann var á landinu en um 70 manns áttu fundi með Pétri og sóttu kynningarfund hans á Grand hótel.

Mikil fjölgun kínverskra ferðamanna

Mikil og ör þróun hefur orðið í kínversku efnahagslífi á sl. árum. Einnig er áberandi sá vöxtur sem hefur orðið í viðskiptum milli Íslands og Kína eftir undirritun fríverslunarsamningsins. Pétur lagði áherslu á að samningurinn fæli aðeins í sér tollfríðindi fyrir íslenskar vörur en þýddi ekki að allar íslenskar vörur ættu óhindraðan aðgang inn á markað í Kína. Pétur sagði samninginn vera fyrsta skref í áttina að frekara samstarfi á sviði viðskipta, ferðaþjónustu og alþjóðasamvinnu, þ.a.m. fjárfestinga. Umsóknum um vegabréfsáritanir hefur fjölgað um 40% á fyrstu mánuðum ársins og þegar fjöldi ferðamanna er borinn saman á milli ára kemur í ljós að kínverskum ferðamönnum hér á landi hefur fjölgað úr 26.037 árið 2014 í 47.643 árið 2015. Því er spáð að aukningin verði enn meiri á komandi árum. Pétur ræddi í því sambandi um að Ísland ætti að búa sig undir mikla aukningu í sölu á neytendavöru til kínverskra ferðamanna.

Tækifæri staðsetningar Íslands

Á fundinum var einnig fjallað um nauðsyn þess að skoða samstarf Íslands og Kína í víðara samhengi. Ísland búi yfir bæði staðbundinni og alþjóðlega mikilvægri staðsetningu á Norður-Atlantshafi, bæði þegar horft er til siglinga um Norðurslóðir og flug milli heimsálfa. Sú staða býður upp á mörg tækifæri í hnattrænu samhengi.

Áhugasamir geta nálgast kynningu Péturs Yang hér

Deila