Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
14. apríl 2021

Yfir 40% ferðamanna ætla að fara til útlanda á næstu 12 mánuðum

Yfir 40% ferðamanna ætla að fara til útlanda á næstu 12 mánuðum
Samkvæmt svarendum könnunarinnar ætla yfir 43% að ferðast erlendis á næstu 12 mánuðum.

Niðurstöður nýrrar könnunar sem gerð var meðal ferðamanna frá Bandaríkjunum, Kanada, Svíþjóð, Danmörku, Þýskalandi, Frakklandi og Bretlandi gefa góð fyrirheit. Könnunin var framkvæmd af Maskínu í febrúar 2021 og voru þátttakendur í flokknum 'meðal eða hærri tekjur og menntun, virkur á atvinnumarkaði eða námi og ferðast með reglubundnum hætti' og bárust um 1000 svör frá hverjum markaði.

Í niðurstöðum kom m.a. fram að nokkuð lítill munur er á milli þeirra mánaða sem ferðamenn segjast verða tilbúnir til að byrja að bóka næstu ferð sína til útlanda. Júní og september 2021 mælast þó hæstir hvað þetta varðar. Rúmlega 43% svarenda ætla að ferðast erlendis á næstu 12 mánuðum. Kanadamenn eru ólíklegastir til að leggja land undir fót á tímabilinu, eða rétt undir 25%, og Bandaríkjamenn eru líklegastir, um 58%. Á öllum markaðssvæðum, nema Kanada, eru svarendur með hærri tekjur líklegri til að ferðast til útlanda á næstu mánuðum heldur en þeir sem eru með lægri laun. Þá virðast yngri ferðalangar (25-35 ára) vera líklegri til að verðast, samkvæmt niðurstöðunum.  

Megin ástæða þeirra sem eru ólíklegir til að ferðast innan árs, eru áhyggjur vegna útbreiðslu Covid-19 (77%). Ísland mælist þó hæst samanburðarlanda þegar kemur að trausti ferðamanna til landa við í baráttunni gegn Covid-19.

Rétt yfir 10% svarenda hyggjast heimsækja Ísland innan 12 mánaða, sem er svipað hlutfall og segjast muni sækja Finnland heim á sama tímabili. Til samanburðar ætla um 7% að heimsækja Nýja Sjáland og 16% Danmörku, en það eru lægstu og hæstu hlutföllin hjá þeim löndum sem spurt var um. Á næstu 12 mánuðum eru Bandaríkjamenn sá hópur sem er hvað líklegastur til að heimsækja Ísland, en á bilinu 14-15% þeirra segjast ætla að koma, en Kanadabúar þeir ólíklegustu, en aðeins 6% svarenda frá Kanada hyggjast heimsækja Ísland á þessu tímabili.

Hér má nálgast helstu niðurstöður


Deila