Fríverslunarsamningur milli Kína og Íslands tók gildi 1. júlí 2014. Tilgangur samningsins er að liðka fyrir viðskiptum á milli landanna og nær hann aðeins til vöruviðskipta. Samningurinn felur í sér niðurfellingu tolla á flestum útflutningsvörum að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, meðal annars um uppruna samkvæmt upprunareglum sem skilgreindar eru í samningnum.
Samningurinn við Ísland er einn af átta tvíhliða fríverslunarsamningum sem Kína hefur gert við önnur ríki og annar af tveimur sem Kína gerir við ríki á norðurhveli jarðar. Mikill áhugi ríkir því hér á landi á að skoða þau tækifæri sem samningurinn felur í sér.
Upplýsingar á síðu utanríkisráðuneytisins.
Í kjölfar gildistöku fríverslunarsamningsins ákvað Íslandsstofa að greina þau tækifæri til aukins útflutnings til Kína sem í samningnum gætu falist. Conor Byrne vann verkið fyrir Íslandsstofu. Tækifærin voru metin út frá:
Sé litið til meðaltals áranna 2012 og 2013 var útflutningur til Kína 7,319 milljarðar króna eða tæplega 1% af öllum útflutningi frá Íslandi á tímabilinu. Helsta útflutningsvara Íslands til Kína er heilfrystur fiskur, aðallega grálúða, karfi og makríll og nam útflutningur á frystum fiski 80% af heildarútflutningi til Kína. Næst á eftir kom lýsi með 9% af útflutningsverðmæti og vélbúnaður 7%.
Niðurstöður sýna að tollar féllu niður strax við gildistöku samningsins á nær öllum vörum sem Íslendingar flytja út til Kína, að því gefnu að þessar vörur uppfylli skilyrði um upprunareglur. Áður báru þessar vörur toll á bilinu 3-16% . Þetta ætti að geta styrkt samkeppnisstöðu Íslands fyrir þær vörur sem nú þegar eru seldar til Kína og mögulega hvatt fleiri til að horfa þangað.
Til að skoða hvort tollaniðurfelling hefði skapað tækifæri til útflutnings á vörum sem hingað til hafa lítið eða ekki verið seldar til Kína var heildarútflutningur frá Íslandi hafður til viðmiðunar. Væri sá útflutningur allur til Kína þyrfti eftir gildistöku samningsins aðeins að greiða toll af 3% verðmætis hans. Í flestum tilvikum féllu niður tollar á bilinu 5-15% en í nokkrum tilvikum allt að 25%. Þegar skoðað er hvar tollaniðurfelling var mest eru lambakjöt, hrossakjöt og innmatur ofarlega á blaði auk t.d. minkaskinna og ýmissa sjávarafurða. Því er ljóst að tækifæri gætu skapast fyrir vörur á Kínamarkaði sem hingað til hafa ekki verið fluttar þangað. Tækifæri varðandi útflutning á kjöti og innmat er þó ekki hægt að nýta fyrr en búið er að semja sérstaklega um gagnkvæma viðurkenningu á eftirliti með dýraafurðum þannig að tryggt sé að þær uppfylli kröfur í innflutningslandinu.
Síðasti liður rannsóknarinnar fólst í því að horfa bara á niðurfellingu tolla, þ.e. að skoða á hvaða vörum hún hefði verið mest, óháð því hvort þær vörur væru framleiddar og seldar frá Íslandi. Markmiðið var að skoða tækifæri sem mögulega hafa skapast með samningnum til að hefja hér framleiðslu eða vinnslu á vörum sem hingað til hafa ekki verið fluttar út frá Íslandi. Þar eru áberandi ýmsar drykkjarvörur, ber, ávextir og sultur auk rafmagnstækja og reiðhjóla.
Ljóst er að ákveðin tækifæri til frekari útflutnings felast í samningnum við Kína. Það er hins vegar háð ýmsum fleiri þáttum en tollum hvernig tekst að vinna úr þeim.
Í eftirfarandi töflum er búið að taka saman upplýsingar um þær vörur sem verið er að flytja út frá Íslandi, annars vegar til Kína og hins vegar til allra viðskiptalanda Íslands, og þær vörur sem héðan væri hægt að flytja til Kína vegna hagstæðra tolla. Skoðað er hvaða áhrif fríverslunarsamningurinn sem tók gildi 1. júlí 2014 hefur á tolla á þessum vörum og þar með hvort og hvaða tækifæri hafa skapast í kjölfar hans. Einnig kemur þar fram hvaða skilyrði þurfa að vera uppfyllt til að varan teljist hafa íslenskan uppruna.
HS númer og tollabreytingar eftir útflutningsverðmæti til Kína
Á þessari töflu er yfirlit yfir þær vörur sem fluttar voru til Kína á árunum 2012-2013 (meðaltal útflutningsverðmætis þessara tveggja ára). Vörunum er raðað eftir verðmæti útlfutnings. Myndinni er ætlað að sýna ávinning af fríverslunarsamningnum með tilliti til tolla. Á myndinni sést að í nær öllum tilvikum féll tollur í Kína niður strax við gildistöku samningsins 1. júlí 2014. Undantekningar eru fryst hrogn og fryst sæbjúgu en tollur á þeim fellur niður í áföngum á næstu fimm árum.
HS númer og tollabreytingar eftir útflutningsverðmæti óháð viðskiptalandi
Þessi tafla gefur yfirlit yfir helstu útflutningsafurðir Íslands á árunum 2012-2013 miðað við meðaltal útflutningsverðmætis þessara tveggja ára, óháð viðskiptalandi. Myndinni er ætlað sýna hvort tækifæri hafi skapast í kjölfar samningsins til að auka útflutning á helstu útflutningsvörum okkar til Kína, þ.e. vörum sem aðallega er verið að selja til annarra landa. Á myndinni sést að í nær öllum tilvikum féll tollur í Kína niður strax við gildistöku samningsins 1. júlí 2014.
HS númer og tollabreytingar eftir tollaniðurfellingu (útfl. alls > ISK50m)
Þessi tafla gefur yfirlit yfir útflutningsafurðir Íslands á árunum 2012-2013 (meðaltal útflutningsverðmætis þessara tveggja ára), óháð viðskiptalandi. Í mynd tvö var skoðað hvaða tollbreyting hefði orðið á þeim vörum sem við seljum mest af en hér er skoðað á hvaða útflutningsvörum hafa orðið mestar tollbreytingar. Myndinni er ætlað að sýna hvort tækifæri hafi skapast í kjölfar samningsins til að hefja eða auka útflutning til Kína á vörum sem áður báru nokkuð háa tolla.
Þessi tafla gefur yfirlit yfir á hvaða vörum hafa orðið mestar tollbreytingar í kjölfar samningsins. Myndinni er ætlað að sýna tækifæri sem mögulega hafa skapast með samningnum til að hefja hér framleiðslu eða vinnslu á vörum sem hingað til hafa ekki verið fluttar út frá Íslandi.