Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa

Hug­verka­rétt­indi

Mikilvægi hugverkaverndar í alþjóðlegum viðskiptum


Á undanförnum árum hefur orðið mikil breyting hér á landi hvað snertir vitund um vernd hugverka. Umsvif fyrirtækja hérlendis hafa aukist mikið og fyrirtæki, t.d. í líftækni, í lyfjaframleiðslu og í framleiðslu hátæknibúnaðar, eru meðvituð um réttindi sín og gæta mörg hver hugverkaréttinda sinna vel. Þá er ekki síður mikilvægt að fyrirtæki séu meðvituð um það að ekki sé verið að brjóta á réttindum annarra. Þátttaka íslenskra fyrirtækja á hörðum samkeppnismarkaði og í alþjóðlegu umhverfi gerir það að verkum,  að mikilvægt er að huga að því að vernda þá þekkingu og ímynd sem þau byggja tilvist sína á. Það hefur sýnt sig á undanförnum misserum að þessi óáþreifanlegu verðmæti innan fyrirtækjanna eru oft og tíðum stór hluti af heildarverðmæti þeirra og hafa þar með áhrif á gengi hlutabréfa. Umræðan um vernd hugverka er alþjóðleg, þar sem það er framleiðendum að sjálfsögðu mjög mikilvægt að réttur þeirra sé tryggður um allan heim með samræmdum hætti.

Hugverkaréttindi og ráðgjöf

Einkaleyfi, vörumerki og hönnun eru iðulega nefnd hugverkaréttindi á sviði iðnaðar og ná yfir uppfinningar/tæknilega útfærslu á hugmynd (einkaleyfi), auðkenni vöru og þjónustu (vörumerki) og útlit vöru (hönnun). Höfundaréttur telst einnig til hugverkaréttinda en þau réttindi eru óskráð.

Til að njóta verndar á grundvelli einkaleyfis, vörumerkis eða hönnunar er rétt að sækja um skráningu, vörumerki eru þó vernduð óskráð að einhverju marki á meðan þau eru í notkun. Í sumum tilfellum gæti borgað sig að sækja um vernd á öllum sviðum.

Á Íslandi er það Einkaleyfastofan sem annast meðhöndlun slíkra umsókna og þar er hægt að nálgast umsóknareyðublöð og fá leiðbeiningar er lúta umsóknarferlinu, hér á landi og erlendis. Einkaleyfastofan veitir auk þess einstaklingum, stofnunum og fyrirtækjum upplýsingar og ráðgjöf varðandi hugverkaréttindi í atvinnulífi.

Upplýsingasetur um einkaleyfi (e. Patent Library (PATLIB)) hafa verið starfrækt hér á landi frá árinu 2006 og eru rekin í samvinnu við Einkaleyfastofuna, annars vegar hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands og hins vegar hjá Vísinda- og nýsköpunarsviði Háskóla Íslands. Upplýsingasetrin eru rekin með það að markmiði að auka vitund og þekkingu almennings á hugverkaréttindum með aukinni fræðslu, upplýsingagjöf og bættri aðstöðu fyrir almenning til að kynna sér slík málefni. Rekstur upplýsingasetranna gerir almenningi sem og starfsmönnum og nemendum háskólanna, kleift að leita sér upplýsinga um hugverkaréttindi eða koma og framkvæma leit í gagnabönkum með aðstoð starfsmanna. Það er líka hægt að fá ráðgjöf einkaleyfasérfræðinga eða umboðsmanna fyrir einkaleyfi, vörumerki og hönnun gegn gjaldi, en nöfn þeirra má meðal annars finna hjá Félagi einkaleyfasérfræðinga (FEIS) og Félagi umboðsmanna vörumerkja og einkaleyfa (FUVE). Einnig bjóða ýmsir lögmenn og lögmannsstofur þjónustu á þessu sviði.

Mikil samræming hefur átt sér stað á sviði hugverkaréttinda, ekki síst síðastliðin ár og starfar Einkaleyfastofan í nánu samstarfi við ríki og stofnanir á erlendum vettvangi. Má þar nefna sérstaklega Alþjóðahugverkastofnunina (WIPO), Evrópsku einkaleyfastofuna (EPO) og samstarf á vettvangi EFTA ríkjanna. Nordic Patent Institute (NPI) er stofnun sem sett var á laggirnar í samstarfi Íslands, Danmerkur og Noregs með það að markmiði að halda tækniþekkingu innan Norðurlandanna og bjóða upp á hraða og góða þjónustu við rannsóknir á einkaleyfum á samkeppnishæfu verði. Stofnunin var samþykkt á þingi WIPO árið 2006 og er alþjóðleg rannsóknastofnun sem annast alþjóðlega nýnæmis- og einkaleyfishæfisrannsókn fyrir Íslendinga, Dani, Norðmenn og Svía.  Nánari upplýsingar er hægt að finna á heimasíðu NPI og heimasíðu Einkaleyfastofunnar