Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa

Útflutnings- og fjárfestingasvið

Svið Útflutnings- og fjárfestinga er kjarnasvið og ber ábyrgð á þjónustu Íslandsstofu við fyrirtæki og hagaðila. Sviðið vinnur eftir útflutningsstefnu Íslands og veitir ráðgjöf og þjónustu til allra útflutningsgreina í því skyni að greiða fyrir markaðssetningu og útflutningi á vörum og þjónustu. Þjónusta er veitt innan sex áherslusviða. Fagstjórar starfa við hverja áherslu og leiða faglega vinnu verkefnahópa um áherslurnar. Að auki starfa fagstjóri útflutningsþjónustu og fagstjóri fjárfestinga innan sviðsins, þvert á áherslur.

Sviðið vinnur að því að laða erlenda fjárfestingu til landsins með markvissu markaðsstarfi, fer með fyrirsvar vegna almennra fyrirspurna hvað varðar Ísland sem vettvang erlendra fjárfestinga og veitir almenna ráðgjöf til íslenskra stjórnvalda um hvernig megi laða erlenda fjárfestingu til landsins.

Sviðið veitir þjónustu til útflutningsfyrirtækja í formi ráðgjafar sem getur falist í ábendingum um heppilega markaði eða upplýsingum um markaðssvæði. Að auki kemur sviðið á tengslum við sérhæfða ráðgjafa, bendir á kaupstefnur, veitir aðgang að gagnasöfnum og eflir viðskiptatengsl íslenskra fyrirtækja erlendis. Sviðið skipuleggur þátttöku íslenskra fyrirtækja í kaupstefnum, vörusýningum eða viðskiptasendinefndum og annast framkvæmd slíkra viðburða erlendis í samvinnu við svið Markaðssamskipta.

Sviðið annast umsjón með starfsemi viðskiptafulltrúa sem starfa í sendiráðum erlendis, vinnur með viðskiptafulltrúum að verkefnum á erlendum mörkuðum og hefur umsjón með gerð verksamninga um þeirra vinnu.