Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
18. apríl 2018

66°Norður hlýtur Útflutningsverðlaun forseta Íslands og Heimir Hallgrímsson heiðraður

66°Norður hlýtur Útflutningsverðlaun forseta Íslands og Heimir Hallgrímsson heiðraður
Sjóklæðagerðin – 66°Norður hlaut í dag Útflutningsverðlaun forseta Íslands 2018 sem veitt voru í 30. skipti. Við sama tilefni var Heimir Hallgrímsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, sæmdur heiðursviðurkenningu fyrir að bera hróður Íslands víða um heim.

Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfari, Sigsteinn Grétarsson, stjórnarformaður Íslandsstofu, Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands og Helgi Rúnar Óskarsson, forstjóri Sjóklæðagerðarinnar - 66°Norður. 


Sjóklæðagerðin – 66°Norður hlaut í dag Útflutningsverðlaun forseta Íslands 2018 sem veitt voru í 30. skipti. Helgi Rúnar Óskarsson, forstjóri fyrirtækisins veitti verðlaununum viðtöku við hátíðlega athöfn á Bessastöðum.  

Við sama tilefni var Heimir Hallgrímsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, sæmdur heiðursviðurkenningu fyrir að bera hróður Íslands víða um heim. 

Skjólfatnaður með skírskotun í íslenskan uppruna


Sjóklæðagerðin - 66°Norður fær verðlaunin fyrir að hafa náð afar athyglisverðum árangri í að hanna, framleiða og selja nútímalegan og vandaðan skjólfatnað, sem er markaðssettur með beinni skírskotun í íslenskan uppruna. 

66°Norður er eitt elsta framleiðslufyrirtæki landsins, en stofnun fyrirtækisins má rekja aftur til ársins 1926. Sjóklæðagerðin framleiddi í fyrstu eingöngu sjóstakka, en nýir atvinnuhættir kölluðu á aukna sérhæfingu í störfum. Fatnaður Sjóklæðagerðarinnar var ekki lengur bundinn við sæfarendur heldur mátti líta framleiðsluna á flestum sviðum þjóðfélagsins. 

Núverandi eigendur félagsins tóku við rekstri félagsins í byrjun árs 2011. Miklir fjármunir hafa verið lagðir í að byggja upp vörumerkið innanlands og á alþjóðlegum mörkuðum. Á sama tíma hefur félagið skapað fjölda verðmætra starfa fyrir íslenskt samfélag á sviði hönnunar, framleiðslu, verslunar og viðskiptaþróunar. 

Fyrsta vörumerkið frá Íslandi skráð af Einkaleyfisstofu á alþjóðamarkaði

Þetta hefur skilað sér í því að í dag er 66°Norður stærsta íslenska vörumerkið í fatnaði á Íslandi og næst stærsti smásali á fatnaði hér á landi á eftir sænska risanum H&M. 

Þess má geta að 66°Norður er fyrsta vörumerkið frá Íslandi sem er skráð af Einkaleyfisstofu á alþjóðamarkaði. Velta félagsins á síðasta ári voru tæpir 4 milljarðar og starfa um 450 manns hjá fyrirtækinu hér á Íslandi, Danmörku og Lettlandi. Þar af starfa rúmlega 200 manns í þremur verksmiðjum félagsins. 

Heimir Hallgrímsson heiðraður fyrir að bera hróður Íslands víða um heim


Við sama tilefni var Heimir Hallgrímsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, veitt sérstök heiðursviðurkenning fyrir að hafa með starfi sínu hafa borið hróður Íslands víða um heim og stuðlað að jákvæðu umtali um land og þjóð.  

Heimir hóf að þjálfa knattspyrnu árið 1985, þá 18 ára gamall. Eftir að hann lauk tannlæknanámi árið 1994 hefur hann rekið tannlæknastofu í Vestmanneyjum, en samhliða stundað þjálfun af kappi. Heimir er hámenntaður í knattspyrnuþjálfun með A-gráðu þjálfarapróf UEFA og hæstu einkunn UEFA Pro gráðu frá enska knattspyrnusambandinu.

Heimir hefur þjálfað bæði yngri flokka ÍBV og meistaraflokka karla og kvenna. Hann var ráðinn þjálfari íslenska landsliðsins við hlið Lars Lagerbäck árið 2013, en undanfarin ár hefur hann einn stýrt liðinu.

Góður árangur íslenska landsliðsins á undanförnum árum undir stjórn og handleiðslu Heimis Hallgrímssonar hefur vakið mikla athygli um víða veröld. Baráttuandinn, einbeitingin, samvinnan, leikgleðin og skipulagið hefur vakið aðdáun og eftirtekt. Um þennan árangur hefur verið fjallað ítarlega í öllum helstu fjölmiðlum heimsins. 

Í fyrra hlaut frú Vigdís Finnbogadóttir fyrrverandi forseti Íslands þennan heiður, en meðal fyrri verðlaunahafa má nefna Helga Tómasson listrænan stjórnanda ballettsins í San Fransisco, Arnald Indriðason rithöfund, Kristin Sigmundsson óperusöngvara, Björk, Magnús Scheving og ljósmyndarann RAX. 

Verðlaunagripurinn

Verðlaunagripurinn í ár er gerður af listakonunni Brynhildi Þorgeirsdóttur og heitir verkið Fjall. Listamaðurinn segir um verkið sitt að „Í fjöllunum finnst fegurðin - formföst með ræturnar í iðrum jarðar teygja þau sig upp í alheiminn og á herðum þeirra öðlast maður víðsýni og auðmýkt til að yfirvinna allar hindranir."

Um útflutningsverðlaunin

Tilgangurinn með veitingu útflutningsverðlaunanna er að vekja athygli á  þjóðhagslegu mikilvægi gjaldeyrisöflunar og alþjóðlegra viðskipta og heiðra þá sem hafa náð sérstaklega góðum árangri í sölu og markaðssetningu á íslenskum vörum og þjónustu erlendis.

Útflutningsverðlaunin eru nú veitt í 30. sinn en þau voru fyrst veitt árið 1989. Meðal annarra fyrirtækja er hlotið hafa verðlaunin í gegnum tíðina eru Icelandair Group, Lýsi hf, Bakkavör, Guðmundur Jónasson og Hampiðjan, og á síðasta ári hlaut Skaginn – 3X verðlaunin.

Úthlutunarreglur kveða á um að Útflutningsverðlaun forseta Íslands skuli veitt fyrirtækjum eða einstaklingum, íslenskum eða erlendum, fyrir árangursríkt starf að útflutningi á íslenskum vörum eða þjónustu á erlendum markaði. Veiting verðlaunanna tekur mið af verðmætisaukningu útflutnings, hlutdeild útflutnings í heildarsölu, markaðssetningu á nýjum markaði, ásamt fleiru.

Í úthlutunarnefndinni sátu að þessu sinni: Örnólfur Thorsson, frá embætti forseta Íslands, Runólfur Smári Steindórsson, frá viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands, Björgólfur Jóhannsson frá Viðskiptaráði, Þórunn Sveinbjörnsdóttir, frá Alþýðusambandi Íslands og Sigsteinn Grétarsson frá Íslandsstofu, en Íslandsstofa ber ábyrgð á undirbúningi og kostnaði við verðlaunaveitinguna.

Deila