Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
10. febrúar 2022

Lykilaðilar í Fish & Chips iðnaðinum í Bretlandi heimsækja Ísland

Lykilaðilar í Fish & Chips iðnaðinum í Bretlandi heimsækja Ísland
Gestirnir frá Bretlandi, Andrew og Josette, eru fulltrúar National Federation of Fish Friers (NFFF) og heimsóttu þau fjölmörg fyrirtæki á meðan dvölinni stóð. Sólveig Arna Jóhannesdóttir frá Brim hf. er hér með á mynd.

Í febrúar voru hér á landi nokkrir lykilaðilar úr Fish & Chips iðnaðinum í Bretlandi, í boði markaðsverkefnisins Seafood from Iceland. Markmiðið með heimsókninni var að kynna þeim íslenskan gæðafisk, koma á tengslum við sjávarútvegsfyrirtæki og ræða mögulegt kynningarsamstarf á breska markaðinum.  

Fish & Chips er mjög vinsæll skyndibiti í Bretlandi. Rúmlega 10.500 Fish & Chips veitingastaðir eru þar í landi, en til samanburðar telur fjöldi McDonalds staða ca. 1.300 og Kentucky Fried Chicken um 900. Ísland er mikilvægur birgi fyrir breska markaðinn og þá sérstaklega þegar kemur að sjófrystum flökum af þorski og ýsu. 

Gestirnir frá Bretlandi voru þau Andrew Crook og Josette Foster fulltrúar National Federation of Fish Friers (NFFF). Heimsóttu þau fjölmörg fyrirtæki á meðan dvölinni stóð: Brim, Matís, Iceland Seafood, Fiskistofu, Þorbjörn o.fl. og var þeim hvarvetna mjög vel tekið.

Josette Foster, sem er stjórnarmaður í NFFF og eigandi veitingastaðarins Fish&Chips Weston Grove í Chester í Bretlandi, var mjög sátt með dvölina: Heimsóknin til Íslands hefur verið ótrúleg og ég á ekki til orð hvað landið er fallegt og heillandi. Þar sem ég nota eingöngu íslenskan þorsk og ýsu hef ég öðlast dýrmæta innsýn í hvernig "fiskurinn minn" er veiddur og meðhöndlaður undir ströngu eftirliti til að tryggja sjálfbærni. Þær móttökur og gestrisni sem við höfum fengið frá íslenskum fyrirtækjum voru hreint ótrúlegar. Í okkar huga sjáum við mörg tækifæri í samstarfi með Seafood from Iceland við að kynna íslenskan fisk framtíðinni.“ 

Andrew Crook er forseti NFFF og rekur þar að auki Fish & Chips staðinn Skippers of Euxton á norðvestur Englandi. Hann hefur að eigin sögn verið í bransanum síðan hann var 9 ára gamall þegar hann byrjaði að skræla kartöflur á Fish & Chips stað foreldra sinna. Andrew hefur einnig verið öflugur talsmaður fyrir hagsmunaðaila í Fish & Chips geiranum í mörg ár. Hann var að koma til Íslands í fyrsta skipti og sagði um heimsóknina: „Ferðin til Íslands var frábært tækifæri til að sjá fjölbreytileikann í íslenskum sjávarútvegi; ekki aðeins veiðarnar heldur einnig vinnsluna, mismunandi vinnsluafurðir og þær rannsóknir og tækni sem felast í því að framleiða þau gæði sem íslenski fiskurinn uppfyllir. Við hlökkum til að vinna með Seafood from Iceland og hjálpa til við að koma boðskapnum áfram um íslenskan fisk á breska markaðnum.“

Julie Waites framkvæmdastjóri Frozen at Sea Fillet Association (FASFA) komst ekki með til Íslands, en tók þátt í fundum á Teams í undanfara heimsóknarinnar og á meðan henni stóð. Hún hafði þetta að segja um samstarfið: „Við eigum í góðu viðskiptasambandi við Ísland en fundirnir sem við höfum átt hafa styrkt þessi traustu bönd enn frekar. Það var afar gagnlegt að fræðast um fiskveiðistjórnun og tækninýjungar. Þá fengum við mjög góða yfirsýn um veiðarnar við Íslandsstrendur, þ.e. hversu vel þeim er stjórnað og hvað þær eru sjálfbærar.“  

Fyrir utan fjölmargar heimsóknir og fundi náðu þau Andrew og Josette einnig að upplifa fegurð landsins og íslenskan snjóstorm, auk þess að fá hágæða fisk frá Íslandi matreiddan á marga ólíka vegu. Bæði voru þau staðráðin í að sækja landið aftur heim í framtíðinni. Í lok ferðar voru þau einróma um að þau hafi lært ýmislegt. Þau vissu nú mun meira um Ísland, íslenska fiskinn og sjálfbærnina sem höfð er að leiðarljósi við veiðar. Eitthvað sem þau geta nú miðlað áfram til viðskiptavina sinna um ókomin ár.  


Deila