Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
29. mars 2022

Samningur um markaðsverkefnið Horses of Iceland endurnýjaður

Samningur um markaðsverkefnið Horses of Iceland endurnýjaður
Nýr samningur um framkvæmd markaðsverkefnisins Horses of Iceland hefur verið undirritaður.

Nýr samningur um framkvæmd markaðsverkefnisins Horses of Iceland var undirritaður í Matvælaráðuneytinu þann 25. mars síðastliðinn. Samkvæmt samningnum mun ráðuneytið verja allt að 25 milljónum á ári næstu þrjú árin til þess að styðja við markaðssetningu á Íslenska hestinum og hestatengdum vörum gegn jafnháu mótframlagi aðila úr greininni.

Tilgangur markaðsverkefnisins Horses of Iceland er að byggja upp orðspor íslenska hestsins á völdum erlendum mörkuðum til að leggja grunn að aukinni verðmætasköpun og útbreiðslu hestsins á heimsvísu Íslandsstofa annast rekstur verkefnisins sem hefur verið starfrækt frá því árið 2016. Aðrir aðilar að verkefninu eru Landsamband hestamanna, Félag hrossabænda og Félag tamningamanna.

Frá því verkefnið hófst hefur náðst góður árangur í markaðsstarfinu og útflutningur aukist á ný, eftir samdrátt árin á undan. Síðastliðið ár var metár í útflutningi íslenskra hrossa, en alls voru 3341 hross flutt úr landi.

Jelena Ohm, verkefnastjóri Horses of Iceland hjá Íslandsstofu: „Það er mjög ánægjulegt að geta tryggt áframhaldandi markaðsstarf í þágu íslenska hestsins og hagsmunaaðila í greininni. Það hefur verið mikill stígandi í starfinu og aukinn áhugi á þessum knáa hesti. En það er enn starf að vinna og tækifæri til að sækja á nýja markaði.“

Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra:Það er ljóst að það samhæfða markaðsstarf sem Horses of Iceland hefur staðið fyrir síðastliðin fjögur ár hefur borið árangur og því er það í senn ánægjulegt og mikilvægt að styðja við það áfram.

Deila