Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
3. maí 2011

Aðalfundur Íslandsstofu: Brýnt að efla alþjóðleg viðskipti

„Aukinn hagvöxtur hér á landi, fjölgun arðbærra starfa og endurheimt þeirra lífskjara sem við áður nutum, hlýtur að byggjast á auknum alþjóðlegum viðskiptum“, sagði Jón Ásbergsson framkvæmdastjóri í erindi sínu á aðalfundi Íslandsstofu. Benti hann á að útflutningur og gjaldeyrisskapandi þjónusta legðu grunn að endurreisn íslensks atvinnulífs. „Á sama hátt er mikilvægt að hvetja erlenda aðila til að nýta sér staðarkosti lands og þjóðar með fjárfestingum og starfsemi hér á landi. Öll starfsemi Íslandsstofu miðar að því að efla þessa þróun, sem er mikilvægari nú en nokkru sinni fyrr,“ sagði Jón.

Friðrik Pálsson formaður stjórnar sagði m.a. að á meira en einni öld hefði íslenskur sjávarútvegur öðrum atvinnugreinum fremur staðið undir stærstum hluta gjaldeyristekna þjóðarinnar. Í dag gæti öflug ferðaþjónusta haft mikil áhrif um allt land, ef vel tækist til, og á síðustu misserum hefði hugverkaiðnaðurinn blómstrað hérlendis. „Margir koma hingað vegna náttúrunnar en öflug menning er jafnframt spennandi segull fyrir ákveðinn hóp. Það er mjög brýnt, sérstaklega núna, þegar ákveðið hefur verið að leggja mikla áherslu á heilsársferðaþjónustu og þar með veturinn, að menningin, þ.m.t. söfn og sýningar, tónlistin, óperan að ógleymdri matarmenningunni okkar, verði vakin og sofin í því að nýta sér samstarfið við hin eiginlegu ferðaþjónustufyrirtæki til að koma sér á framfæri. Þá er rétt að minnast á kvikmyndagerðina sem er á talsverðri siglingu sem stendur.“

Hátt í 200 manns sóttu aðalfund Íslandsstofu sem haldinn var 28. apríl. Friðrik Pálsson ávarpaði gesti og Jón Ásbergsson stiklaði á stóru á starfsárinu 2010. Formenn fagráða Íslandsstofu greindu því næst frá hlutverki sínu og framtíðarsýn. Þá skýrði Guðný Káradóttir markaðsstjóri frá ábyrgum fiskveiðum, Inga Hlín Pálsdóttir forstöðumaður fjallaði um Inspired by Iceland-verkefnið og Halldór Guðmundsson verkefnisstjóri fjallaði um Sögueyjuna Ísland, heiðursgest Bókasýningarinnar í Frankfurt 2011. Loks tóku forstöðumenn Íslandsstofu til máls og skýrðu frá meginþáttum starfseminnar.

Fundarstjóri á aðalfundinum var Rakel Olsen, framkvæmdastjóri Sigurðar Ágústssonar í Stykkishólmi.

Deila