Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
14. júní 2012

Áhugaverð námsstefna í Kaupmannahöfn

Áhugaverð námsstefna í Kaupmannahöfn
Fjögur íslensk fyrirtæki tóku þátt í námsstefnu um innkaup stofnana Sameinuðu þjóðanna sem haldin var í Kaupmannahöfn dagana 6. og 7. júní.

Fjögur íslensk fyrirtæki tóku þátt í námsstefnu um innkaup stofnana Sameinuðu þjóðanna sem haldin var í Kaupmannahöfn dagana 6. og 7. júní. Alls áttu 114 fyrirtæki frá Danmörku, Noregi og Íslandi fulltrúa á námsstefnunni, bæði fyrirtæki sem eru að kanna þennan stóra markað en einnig þau sem hafa reynslu af viðskiptum við SÞ. Á námsstefnunni fengu þátttakendur upplýsingar um kröfur sem Sameinuðu þjóðirnar gera til sinna birgja, leiðbeiningar um skráningu á innkaupavef SÞ og innsýn í innkaupaferli hinna ýmsu stofnana. Sjö af stofnunum SÞ hafa skrifstofur í Kaupmannahöfn en auk fulltrúa þeirra fluttu m.a. erindi á fundinum starfsmenn SÞ í Afríku, Bandaríkjunum og Miðausturlöndum, ásamt fulltrúum annarra alþjóðastofnana.

Íslensku þátttakendurnir voru ánægðir með námsstefnuna, enda mikið af gagnlegum upplýsingum til að taka með heim og vinna úr. Að auki áttu þeir flestir góða fundi með fulltrúum einstakra stofnana og gátu þar komið á framfæri vörum og þjónustu en ekki síður hugmyndum um hvað betur mætti fara í útboðsferli SÞ. Samkvæmt upplýsingum sem fram komu á námsstefnunni stendur Ísland hinum Norðurlandaþjóðunum langt að baki þegar kemur að viðskiptum við SÞ. Ljóst er að ýmis tækifæri felast í þessum stóra markaði, en inngöngu á hann þarf að undirbúa vel og gera ráð fyrir að nokkurn tíma geti tekið að komast inn fyrir þröskuldinn.

Nánari upplýsingar veita Erna Björnsdóttir, erna@islandsstofa.is og Hermann Ottósson, hermann@islandsstofa.is

Deila