Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
26. mars 2014

Áhugaverð ráðstefna um þróun og áskoranir í matarferðamennsku

Áhugaverð ráðstefna um þróun og áskoranir í matarferðamennsku
Matvælalandið Ísland stóð fyrir ráðstefnu þann 20. mars sem bar yfirskriftina „Vöxtur í ferðaþjónustu – er maturinn tilbúinn?“ Á ráðstefnunni var fjallað um þróun matarferðamennsku, hérlendis og erlendis, og þau tækifæri og þær áskoranir sem í henni felast.

Matvælalandið Ísland stóð fyrir ráðstefnu þann 20. mars sem bar yfirskriftina „Vöxtur í ferðaþjónustu – er maturinn tilbúinn?“ Á ráðstefnunni var fjallað um þróun matarferðamennsku, hérlendis og erlendis, og þau tækifæri og þær áskoranir sem í henni felast. Ráðstefnan var vel sótt en 180 manns mættu til að kynna sér málefnið.

Matvælalandið Ísland er samstarf aðila í matvælageiranum sem Íslandsstofa tekur þátt í ásamt m.a. Samtökum iðnaðarins, Bændasamtökum Íslands, Samtökum ferðaþjónustunnar, Samtökum fiskvinnslustöðva, Matís og Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Markmiðið með samstarfinu er m.a. að bæta samvinnu og gegnsæi í matvælageiranum, skoða vaxtarbrodda og tækifæri og stuðla að nýsköpun, verðmætasköpun og aukinni framleiðni.*

Á ráðstefnunni ræddi Ami Hovstadius frá VisitSweden um reynslu Svía af markaðssetningu Svíþjóðar sem matvælalands. Laufey Haraldsdóttir, lektor í Háskólanum á Hólum, greindi frá þróun matarferðaþjónustu á Íslandi og Mário Frade, vörumerkjastjóri, Nóa Síríusi, lýsti því hvernig fyrirtækið hefur þróað markaðsáætlanir með það að markmiði að höfða til ferðamanna.
Í öðrum hluta ráðstefnunnar var rætt um viðbrögð Íslendinga við auknum fjölda ferðamanna, framboð af íslensku hráefni og veitingaþjónustu og hvernig menningar- og matartengd ferðaþjónusta hefur þróast á síðustu árum. 

Á eftir erindunum var boðið upp á pallborðsumræður en þar tóku þátt Guðný Káradóttir, forstöðumaður sjávarútvegs og matvæla hjá Íslandsstofu, Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís og Gunnar Valur Sveinsson, verkefnastjóri hjá SAF. 

Nánari upplýsingar um dagskrána og upptökur af erindunum má finna
á vef Bændasamtakanna.

*Matvælalandið Ísland stefnir að því að ná settu marki með því að vekja athygli á því sem vel er gert ásamt því sem þarf að gera, stuðla að samantekt á gögnum og kortlagningu um stöðu matvælaframleiðslu, skilgreina áherslusvið þar sem þörf er á samstarfi og efla sjálfbæra matvælaframleiðslu.

Deila