Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
3. maí 2011

Áhugi á viðskiptum við Slóveníu

Í tilefni af heimsókn forseta Slóveníu, dr. Danilo Türk, skipulagði Íslandsstofa í samvinnu við utanríkisráðuneyti Slóveníu viðskiptaráðstefnu þar sem komið var á samböndum milli íslenskra fyrirtækja og fjölda slóvenskra fyrirtækja sem voru í sendinefnd sem fylgdi forsetanum. Var fundurinn haldinn á Radisson Blu Hótel Sögu miðvikudaginn 4. maí.

Meginmarkmið fundarins var að bjóða fulltrúum frá áhugasömum fyrirtækjum á Íslandi til fundar við fulltrúa slóvensku fyrirtækjanna til að ræða mögulega samstarfsfleti. Stór hluti sendinefndarinnar, sem taldi 25 fyrirtæki, var hingað kominn til að kynna sér orkumál og nýtingu Íslendinga á endurnýjanlegum orkugjöfum. Einnig voru með í för fyrirtæki úr öðrum greinum, s.s. bankastarfsemi, heilbrigðisþjónustu, upplýsingatækni, málmtækni og fjarskiptum.

Ráðstefnan hófst með ávörpum forseta Íslands, Ólafs Ragnars Grímssonar og forseta Slóveníu, dr. Danilo Türk. Tækifærið var notað til að undirrita tvo samninga, annarsvegar milli fyrirtækisins Duol and Hveragerðisbæjar um kaup á íþróttahúsi og hinsvegar milli verkfræðistofunnar Mannvit and Geoeks um ráðgjöf við vinnslu á jarðhita í Slóveníu.

Að loknu stuttu hléi kynnti Kristinn Hafliðason hjá Íslandsstofu lykilþætti í íslensku viðskiptaumhverfi og Petra Ambrožic frá JAPTI kynnti slóvenskt viðskiptaumhverfi. Því næst áttu fulltrúar rúmlega 30 íslenskra fyrirtækja árangursríka fundi með slóvensku fyrirtækjunum og er talið að stofnað hafi verið til margra viðskiptasambanda.

Í framhaldi af viðskiptaráðstefnunni var fastmælum bundið að kannað skyldi með áhuga á skipulagi á viðskiptasendinefnd frá Íslandi til Slóveníu.

Deila