Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
16. maí 2017

Alþjóðlegur dagur íslenska hestsins og Hestadagar

Alþjóðlegur dagur íslenska hestsins og Hestadagar
Hestadagar voru haldnir á Íslandi dagana 29. apríl til 1. maí sl. og Dagur íslenska hestsins þann 1. maí á heimsvísu. Markaðsverkefnið Horses of Iceland stóð að dagskrá Hestadaga í samstarfi við innlenda hagsmunaaðila og virkjaði fólk um allan heim í að kynna íslenska hestinn með fjölbreyttum hætti á alþjóðlegum degi íslenska hestsins. Mikill fjöldi fólks tók þátt í dagskránni og deildi myndum af upplifun sinni á samfélagsmiðlum.

Hestadagar voru haldnir á Íslandi dagana 29. apríl til 1. maí sl. og Dagur íslenska hestsins þann 1. maí á heimsvísu. Markaðsverkefnið Horses of Iceland stóð að dagskrá Hestadaga í samstarfi við innlenda hagsmunaaðila og virkjaði fólk um allan heim í að kynna íslenska hestinn með fjölbreyttum hætti á alþjóðlegum degi íslenska hestsins. Mikill fjöldi fólks tók þátt í dagskránni og deildi myndum af upplifun sinni á samfélagsmiðlum.

Hestadagar endurvaktir

Dagskráin þessa daga var fjölbreytt og höfðu hestamannafélög, Hólaskóli o.fl. frumkvæði að því að setja upp sýningar og viðburði. Laugardaginn 29. apríl voru kennslusýningar þriðja árs nema í Hólaskóla haldnar í Spretti, Æskan og hesturinn á Sauðárkróki og í Reykjavík og ræktunarsýning á Suðurlandi. Sunnudaginn 30. maí var skrúðreið í gegnum miðbæ Reykjavíkur. Fjöldi hestamanna safnaðist saman við Hallgrímskirkju þar sem Áshildur Bragadóttir, forstöðumaður Höfuðborgarstofu, hélt opnunarræðu og karlakórinn Stormsveitin söng nokkur lög. Því næst var riðið niður Skólavörðustíginn og fylgdist fjöldi manns með. Fjallkonan leiddi hópinn undir fánaborg í fylgd hestvagna og reiðmanna frá ýmsum hestamannafélögum. Reiðin endaði á Austurvelli þar sem fólki gafst tækifæri til að klappa hestunum og spjalla við knapana. Mikil stemming var í hópnum sem gerði það að verkum að dagurinn var mjög vel heppnaður.

Alþjóðlegur dagur íslenska hestsins 1. maí

Sunnudaginn 1. maí var Dagur íslenska hestsins haldinn hátíðlegur um allan heim, en íslensk hestamannafélög eru í tuttugu og einu landi í heiminum. Eigendur íslenska hestsins víðsvegar um heiminn gerðu sér glaðan dag og víða voru hestamenn með opið hús og buðu í útreiðartúra.

Markmiðið með deginum er að kynna hestinn og hestamennsku fyrir almenningi, hafa gaman og njóta dagsins og slá á létta strengi. Í Þýskalandi var haldið skemmtilegt mót 1. maí og sænska félagið hélt skrúðreið í gegnum miðbæ Stokkhólms. Upplifun dagsins var síðan deilt á samfélagsmiðlunum með myllumerkinu #horsesoficeland, ljósmyndum og myndskeiðum og fjölmargir tóku þátt í myndasamkeppni sem Horses of Iceland var með í gangi. Ljósmyndarinn, sem fékk flest atkvæði fyrir myndina sína heitir Sandra Fencl og býr í Austurríki. Hún vann fjögurra daga vetrarferð með Hey Iceland. Óskum við henni innilega til hamingju! Hér að neðan má sjá vinningsmyndina, auk nokkurra mynda frá Hestadögum í Reykjavík.

Frekari upplýsingar um markaðsverkefnið Horses of Iceland má finna hér

Deila