Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
2. júní 2017

Ask Guðmundur fékk tvö silfur á Effie verðlaunaafhendingunni í Norður Ameríku

Ask Guðmundur fékk tvö silfur á Effie verðlaunaafhendingunni í Norður Ameríku
Markaðsherferðin Ask Guðmundur sem er hluti af Inspired by Iceland herferð Íslandsstofu fékk tvenn silfurverðlaun á Effie verðlaunahátíðinni sem haldin var hátíðlega í New York í nótt

Markaðsherferðin Ask Guðmundur sem er hluti af Inspired by Iceland herferð Íslandsstofu fékk tvenn silfurverðlaun á Effie verðlaunahátíðinni sem haldin var hátíðlega í New York í nótt. Þetta er í fyrsta skipti sem íslenskri auglýsingaherferð eru veitt verðlaun í Ameríkuhluta Effie keppninnar, en áður hafði Ask Guðmundur herferðin hlotið fimm verðlaun í Evrópuhluta keppninnar.

Herferðin fékk verðlaun í tveimur flokkum, annars vegar fyrir Travel & Tourism, þar sem hún atti m.a. kappi við Airbnb, og hins vegar David vs Goliath, en það er fyrir markaðssetningu í umhverfi þar sem samkeppni við stærri fyrirtæki og vörumerki er mikil.

Inspired by Iceland herferðin byggir á samstarfi opinberra aðila og íslenskrar ferðaþjónustu og er Íslandsstofa er framkvæmdaraðili herferðarinnar. Samstarfsaðilar eru Íslenska auglýsingastofan og The Brooklyn Brothers í London.

Ask Guðmundur, The Human Search Engine, var samfélagsmiðladrifin herferð sem gerði notendum kleift að spyrja sjö Íslendinga frá ólíkum landshlutum, sem allir bera nafnið Guðmundur eða Guðmunda, um Ísland, hefðir, náttúru og menningu. Spurningum var svarað á samfélagsmiðlum og sumum var svarað með myndböndum sem dreift er á samfélagsmiðlum og sjá má á YouTube-rás Inspired by Iceland.

Effie verðlaunin, sem sett voru á fót árið 1968, eru ein virtustu auglýsingaverðlaun heimsins og eru dómnefndir skipaðar fagfólki með umfangsmikla markaðs- og auglýsingareynslu. Sérstaða Effie verðlaunanna felst ekki síst í því að þau verðlauna árangur herferða, ekki einungis útlit. 

Deila