Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
3. maí 2021

Aukin fjölbreytni og áhættudreifing mikilvæg

Aukin fjölbreytni og áhættudreifing mikilvæg
Við Íslendingar stöndum nú á spennandi tímamótum. Áhrif faraldursins fara hratt dvínandi í okkar helstu viðskiptalöndum með tilheyrandi tækifærum fyrir okkar útflutningsgreinar.

Hildur Árnadóttir, formaður stjórnar Íslandsstofu, setti Ársfund Íslandsstofu 2021. Erindi hennar má lesa hér á vefnum ásamt því sem upptaka af fundinum fylgir í heild.

„Fundarstjóri, utanríkisráðherra og aðrir góðir gestir

Við komum saman til ársfundar Íslandsstofu á undarlegum tímum. Seinustu mánuðir fara í sögubækur fyrir áhrif kórónuvírussins á heimsbyggðina. Hvern hefði órað fyrir því fyrir fimmtán mánuðum að áður óþekktur sjúkdómur myndi hafa þau áhrif sem raunin varð? Að tilvera fólks um allan heim myndi hverfast um fjölda smita, veikindi, dauðsföll og stöðu bólusetninga?

Hér á Íslandi hefur okkur auðnast að takast á við faraldurinn með aðferðum vísindanna og nú þegar við sjáum til lands megum við vera stolt af því hvernig tekist hefur til. Þetta hefur vakið athygli víða um heim og hefur Ísland verið til umfjöllunar fjölmargra erlendra fjölmiðla vegna þess hvernig til hefur tekist í baráttunni við veiruna. Í könnun sem Íslandsstofa gerði fyrr á árinu kom fram að þegar spurt var um traust til mismunandi landa vegna viðbragða við Covid var Ísland í efsta sæti, sjónarmun fyrir ofan Kanada. Framkvæmdastjóri mun koma nánar að niðurstöðum könnunarinnar.

Útflutningstekjur Íslands drógust saman um tæplega 30% á seinasta ári og er sá samdráttur að langmestu leyti vegna þess að flug og ferðaþjónusta lagðist í hýði mestan hluta ársins. Það er hins vegar afar ánægjulegt að sjá þá aukningu sem hefur orðið í útflutningstekjum af hugverkaiðnaði en tekjur af  þeirri grein námu yfir 150 milljörðum króna í fyrra. Hér er orðin til ný stoð í gjaldeyristekjum sem gera má ráð fyrir að haldi áfram að vaxa á næstu árum og áratugum. Þá er ánægjulegt að þrátt fyrir kreppu sem fylgdi faraldrinum um allan heim er aukning á útflutningstekjum vegna sjávarafurða. Þetta sýnir okkur hversu mikilvægt það er að fjölga þeim körfum sem við setjum eggin í, fjölbreyttar stoðir útflutningstekna fela í sér áhættudreifingu sem er afar mikilvæg fyrir þjóð sem reiðir sig á útflutning.

Við upphaf faraldursins var ljóst að áhrifa hans myndi gæta víða og nauðsynlegt væri að mæta því áfalli sem honum fylgdi. Stjórnvöld stigu mjög mikilvægt skref þegar ákveðið var að verja 1.500 milljónum króna til markaðssetningar á Íslandi sem áfangastað. Þeir fjármunir hafa verið nýttir til þess að halda vitund um landið vakandi á okkar helstu mörkuðum. Stærstum hluta þeirra fjármuna hefur þó ekki verið ráðstafað þar sem nauðsynlegt er að hafa svigrúm til viðamikilla aðgerða þegar ferðavilji eykst á okkar helstu mörkuðum og lönd taka að opnast. Sem betur fer hillir nú undir þann tíma.

Góðir fundarmenn:

Á vettvangi Íslandsstofu var unnið að fjölbreyttum verkefnum á seinasta ári og umfang starfseminnar hefur aukist mikið á undanförnum tveimur árum með nýjum verkefnum. Allt eru þetta spennandi verkefni sem styðja við það hlutverk Íslandsstofu að auka útflutningstekjur og hagvöxt.

Við Íslendingar stöndum nú á spennandi tímamótum. Áhrif faraldursins fara hratt dvínandi í okkar helstu viðskiptalöndum með tilheyrandi tækifærum fyrir okkar útflutningsgreinar. Okkur hefur auðnast að fjölga stoðunum og við eigum að halda áfram á þeirri braut.“

Flutt á Ársfundi Íslandsstofu 28. apríl 2021.

Upptaka frá fundinum, dagskrá fundarins hefst á mínútu 15:00. Eliza Reid, forsetafrú stýrði fundi.

Deila