Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
5. maí 2021

Beggja skauta byr

Beggja skauta byr
Í útflutningsstefnu fyrir Ísland, sem við kynntum fyrir rúmu ári síðan settum við fram þá framtíðarsýn að Ísland verði þekkt sem leiðandi land á sviði sjálfbærni.

Pétur Þ. Óskarsson, framkvæmdastjóri Íslandsstofu, kom víða við á Ársfundi Íslandsstofu 2021 enda reyndist liðið starfsár viðburðarríkt þrátt fyrir allt. Í erindi sínu fjallaði hann um beggja skauta byr og tækifærin framundan á krefjandi tímum.

Pétur rýndi í þá þróun sem varð á utanríkisviðskiptum Íslendinga á síðasta ári. Það hafði mikil áhrif að stærsta útflutningsgrein þjóðarinnar, ferðaþjónustan, lagðist í hýði mestan part ársins. En á móti kom að aðrar greinar, sjávarútvegur og hugverkaiðnaður uxu milli ára. „Það er athyglisvert að sjá að hugverkaiðnaðurinn hefur tvöfaldast frá árinu 2013.”

Framkvæmdastjóri Íslandsstofu varpaði upp mynd af breyttri samsetningu útflutnings 2020. Ferðaþjónusta fór úr 35% í 12% á meðan hugverkaiðnaður hækkaði í 16%, aðrar greinar námu samtals 25% og sjávarafurðir 27%.

„Fyrir mér sýnir þetta þau tækifæri sem við Íslendingar stöndum frammi fyrir nú þegar kófinu fer að slota. Verkefni okkar er að vinna þannig úr þessari stöðu að ferðaþjónustan vaxi og dafni á sama tíma og aðrar greinar haldi áfram að vaxa með sjálfbærum hætti. Í því samhengi er áhugavert að skoða hver staða okkar og ímynd er á erlendum mörkuðum um þessar mundir. Íslandsstofa framkvæmdi fyrr á árinu könnun meðal neytenda í Bandaríkjunum, Kanada, Bretlandi, Þýskalandi, Danmörku og Svíþjóð.“

Könnunin gefur góð fyrirheit.

Rúmlega 43% svarenda ætla að ferðast erlendis á næstu 12 mánuðum. Kanadamenn eru ólíklegastir til að leggja land undir fót á tímabilinu, eða rétt undir 25%, og Bandaríkjamenn eru líklegastir, um 58%. Á öllum markaðssvæðum, nema Kanada, eru svarendur með hærri tekjur líklegri til að ferðast til útlanda á næstu mánuðum heldur en þeir sem eru með lægri laun. Þá virðast yngri ferðalangar (25-35 ára) vera líklegri til að verðast, samkvæmt niðurstöðunum. 

Sjálfbærni í forgrunni
Pétur vék í erindi sínu að útflutningsstefnu fyrir Ísland sem kynnt var fyrir rúmu ári.

„Í útflutningsstefnu fyrir Ísland, sem við kynntum fyrir rúmu ári síðan settum við fram þá framtíðarsýn að Ísland verði þekkt sem leiðandi land á sviði sjálfbærni. Það er því athyglisvert að sjá að þegar svarendur eru spurðir opinnar spurningar um hvaða land þeim detti í hug sem leiðtoga í sjálfbærni er Ísland í 7. sæti. Á milli Kanada og Japans og fyrir ofan land á borð við Nýja Sjáland. Við erum í 7. sæti í opinni spurningu - það er í raun frábær niðurstaða. En það er engin medalía fyrir 7. sætið og þegar við skoðum þau lönd sem við viljum bera okkur saman við þá sjáum við að þau skora töluvert hærra.”

Spennandi vinnumarkaður
Athygli vekur að í könnuninni sögðu 46% svarenda sögðu það vera aðlaðandi kost að starfa á Íslandi. Bandaríkjamenn og Kanadabúar eru hvað jákvæðastir gagnvart Íslandi, en það starfsfólk sem mælist jákvæðast fyrir því að vinna á Íslandi er fólk sem starfar í viðskiptum, við ráðgjöf, í orkugeiranum, upplýsingatækni, markaðsmálum og vísindum og líftækni. Svo virðist sem yngri svarendur með hærri tekjur og menntun séu jákvæðari gagnvart því að vinna á Íslandi.

Mikið traust
Ánægjuleg niðurstaða fékkst þegar fólk var spurt um hversu mikið traust fólk ber til þjóða í samhengi við það hvernig þær hafa tekist á við Covid-19. „Það er gríðarlega jákvætt að sjá að þar er Ísland í efsta sæti með 81% traust. Og þetta skiptir verulegu máli vegna þess að þegar fólk er spurt að því hvað gæti komið í veg fyrir ferðalag á næstu 12 mánuðum þá nefna 77% Covid-19, og auðvitað ekkert óvænt í því.  Þannig að ef maður tekur þessar niðurstöður saman þá varpa þær upp svipaðri mynd og við höfum séð í fyrir könnunum. Ísland er með mjög sterka stöðu sem áfangastaður fyrir ferðamenn og þegar kemur að þessari innri gerð samfélagsins þá er svigrúm til að gera betur og það er sú vinna sem við höfum verið í undanfarna mánuði.”

Pétur ræddi um fjölbreytt markaðssarf Íslandsstofu á erlendum mörkuðum, hvernig það hefur verið samræmt, skilaboð meitluð og ráðist í vel heppnuð verkefni með fjölmörgum samstarfsaðilum.

Þá kynnti hann til leiks Fredrik Fexe, framkvæmdastjóra Business Sweden  en samstarfssamningur Íslandsstofu og Business Sweden var kynntur á fundinum. Með undirritun hans verður íslenskum fyrirtækjum veittur dýrmætur aðgangur að þjónustu Business Sweden á 42 mörkuðum.

Let it out!
Að sjálfsögðu komu gulir hátalarar við sögu, auk streitulosunar vegna kófsins, og vel heppnaðra markaðsaðgerða við að halda nafni Íslands á lofti og vitund um landið sem vænlegs áfangastaðar þegar ferðalög hefjast almennt á ný. En sjón er sögu ríkari.

Upptaka frá fundinum, dagskráin hefst á mínútu 15:00. Eliza Reid, forsetafrú stýrði fundi.

Deila