Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
29. nóvember 2018

Búast má við fjölgun indverskra ferðamanna til Íslands

Búast má við fjölgun indverskra ferðamanna til Íslands
Fullsetið var á fundi Íslandsstofu sem fór fram á Grand Hótel Reykjavík í gær og fjallaði um indverska ferðaþjónustumarkaðurinn. Um 120 gestir sátu fundinn þar sem rætt var um indverska ferðamenn, ferðavenjur og tækifæri sem felast í komu þeirra til Íslands.

T. Armstrong Changsan, sendiherra Indlands á Íslandi ávarpaði gesti og lýsti yfir ánægju sinni með að sjá svona marga sem eru áhugasamir um Indland. Hann sagði frá því að áfangastaðir eins og Ísland nytu vaxandi vinsælda á Indlandi og að ýmsir væru með Ísland á „Bucket" listanum sínum. Hann sagði jafnframt frá því að með aukinni tæknivæðingu og notkun samfélagsmiðla hefðu boðleiðir í sendiráði Indlands víða um heim styst til muna. Ætti því að vera auðveldara að miðla upplýsingum um Indland, afgreiða vegabréfsáritanir o.fl. sem mun greiða leiðina fyrir ferðalög landsmanna enn frekar.

Sara Grady, forstöðumaður ferðamála hjá GlobalData í London ræddi um strauma og stefnur í ferðavenjum Indverja. Hún sagði frá því að ferðalög frá Indlandi hefðu verið 23 milljónir talsins árið 2017 og búast mætti við að þessi tala verði komin upp í 30 milljónir árið 2020. Hún talaði um að Indverjar væru mjög heillaðir af snjó og vetrarferðamennsku sem hægt væri að nýta í markaðssetningu hér á landi. Þá sagði hún eina leið til farsællar markaðssetningar vera að tilnefna sendiherra úr röðum Bollywood leikara, eða aðra fræga Indverja, til að miðla upplýsingum um landið. Þetta hafi t.a.m. verið gert í Sviss með mjög góðum árangri.
Hér má sjá kynningu Söru Grady

Deepika Sachdev, menningar- og ferðamálafulltrúi hjá sendiráði Íslands í Nýju-Delí greindi frá því að stækkandi millistétt Indlands telur nú heilar 55 milljónir. Sagði hún vaxandi hagkerfi bjóða upp á ýmis tækifæri, en verg landsframleiðsla á Indlandi jókst t.a.m. um 7% árið 2017. Mikil aukning er í alþjóðlegum ferðalögum en þar koma sterkar inn MICE ferðir og lúxusferðir af ýmsum toga, að hennar sögn. Brúðkaupsferðir eru mjög vinsælar en þær eru að jafnaði farnar mánuðina nóvember til febrúar, sem býður upp á ýmsa möguleika fyrir markaðssetningu Íslandsferða utan háannar. Þá sagði hún, eins og Sara kom einnig að, að Bollywood myndir væru miklir áhrifavaldar á Indlandi. Þetta sýndi sig og sannaði þegar indverska tónlistarmyndbandið Dilwale sem tekið var upp á Íslandi var gefið út árið 2015, en segja má að myndbandið hafi komið Íslandi á kortið hjá Indverjum.
Hér má sjá kynningu Deepika Sachdev

Að lokum kom Þorleifur Þór Jónsson frá Íslandsstofu og ræddi um ferðasýningar og vinnustofuferðir Íslandsstofu á fjarmörkuðum og sýndi m.a. yfirlit yfir áætlaðar ferðir á árinu 2019. Hann talaði um að gríðarlegur áhugi sé meðal íslenskra ferðaþjónustufyrirtækja að sækja á fjarlæga markaði og í sumum tilfellum hafi þátttakendum í ferðunum fjölgað um helming ár frá ári. Sagði hann að eftir miklu væri að slægjast á þessum mörkuðum. Ferðamönnum frá Asíu færi fjölgandi, en gistinætur ferðamanna frá Kína voru t.a.m. tæplega 90 þúsund árið 2017. Gistinætur ferðamanna frá Indlandi voru einungis 3 þúsund árið 2013 en 21 þúsund talsins árið 2017 og má að öllum líkindum búast við frekari aukningu á komandi árum. 

Fundarstjóri á fundinum var Pétur Þ. Óskarsson, framkvæmdastjóri Íslandsstofu.

Hér má sjá upptöku frá fundinum


 

Deila