Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
21. október 2021

Controlant með tengilið í Hvíta húsinu

Controlant með tengilið í Hvíta húsinu
Controlant er handhafi Nýsköpunarverðlauna Íslands 2020.

Gísli Herjólfsson, framkvæmdastjóri Controlant, segir spennandi tíma hjá fyrirtækinu. Controlant er með tengilið í Hvíta húsinu og er í góðu sambandi við fjölmargar ríkisstjórnir til að geta sinnt hlutverki sínu við að koma bóluefni gegn Covid-19 á öruggan hátt til heimsbyggðarinnar í samstarfi við mörg af stærstu lyfjafyrirtækjum heims. Nú þegar hefur fyrirtækið vaktað um tvo milljarða bóluefnaskammta sem hafa verið sendir til nærri 200 landa.

Þetta kemur fram í Útlínum, nýju hlaðvarpi Íslandsstofu, þar sem rætt er við Gísla sem er einn af stofnendum Controlant.

Útlit er fyrir að næsta ár verði enn stærra en 2021 en fram undan er að koma bóluefni hratt til fátækari ríkja heimins. Starfsmannafjöldi Controlant hefur fimmfaldast á skömmum tíma og um 300 manns starfa nú hjá fyrirtækinu. Fram undan er uppbyggingarstarf á erlendum mörkuðum en Contolant starfar ekki einungis innan lyfjageirans því tækifærin liggja víða, til að mynda innan matvælageirans.



Controlant tryggir gæði viðkvæmra vara í flutningi og dregur úr sóun á lyfjum og matvælum. Controlant gefur framleiðendum lyfja og matvæla mikilvægar rauntímaupplýsingar um hitastig og raka sem fást með nettengdum gagnaritum. Áralöng fjárfesting í tækniþróunarstarfi hefur skilað sér í hröðum vexti tekna og er starfsemin nú komin til rúmlega 100 landa.

Deila