Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
7. apríl 2016

Dohop hlýtur Nýsköpunarverðlaun Íslands 2016

Dohop hlýtur Nýsköpunarverðlaun Íslands 2016
Fyrirtækið Dohop hlaut Nýsköpunarverðlaun Íslands 2016 sem afhent voru á Nýsköpunarþingi í morgun. Davíð Gunnarsson, framkvæmdastjóri Dohop, veitti verðlaununum viðtöku úr hendi Ragnheiðar Elínar Árnadóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra.
Fyrirtækið Dohop hlaut Nýsköpunarverðlaun Íslands 2016 sem afhent voru á Nýsköpunarþingi í morgun. Davíð Gunnarsson, framkvæmdastjóri Dohop, veitti verðlaununum viðtöku úr hendi Ragnheiðar Elínar Árnadóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Nýsköpunarþingið var haldið á Grand hótel og var vel sótt. Yfirskrift þingsins var: Nýsköpun í starfandi fyrirtækjum. Tækifæri í samvinnu?
 
Dohop er tæknifyrirtæki í ferðageiranum. Það var stofnað árið 2004 og á skrifstofu félagsins í Reykjavík starfa 30 manns við þróun og markaðssetningu vefsins Dohop.com. Hingað til hafa mestar tekjur Dohop komið frá rekstri vefsíðunnar en nú blasa við nýir tímar. Fyrirtækið hefur gert samninga við Gatwick flugvöll, rússneska leitarrisann Yandex og bandarísku ferðaskrifstofuna Fareportal um kaup á aðgangi að tækni Dohop. Að sögn Davíðs Gunnarssonar eru fjölmargar samningar í burðarliðnum og hyggur fyrirtækið á frekari sókn. 
 
Dohop hefur unnið til nokkurra verðlauna á undanförnum árum, m.a. var Dohop útnefnt World's Leading Flight Comparison Website á World Travel Awards árið 2014 og tilnefnt aftur 2015. Dohop vann USA Today Reader's Choice Award sem Best app/website for transportation og var tilnefnt til Eyefortravel verðlaunanna fyrir Best Mobile App og Best Mobile User Experience í San Francisco í mars 2016.
 
Nýsköpunarverðlaun Íslands 

Nýsköpunarverðlaun Íslands eru veitt af Rannís, Íslandsstofu, Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins, til fyrirtækja sem þykja hafa skarað fram úr í þróun nýrrar vöru eða þjónustu, sem byggð er á rannsóknar- og nýsköpunarstarfi og náð hefur árangri á markaði.
 
Tilgangur verðlaunanna er að vekja athygli á þeim mikilvægu tengslum sem eru á milli rannsókna og þekkingaröflunar og aukinnar verðmætasköpunar í atvinnulífinu. Verðlaunagripurinn er stytta af frjósemisgoðinu Frey eftir Hallstein Sigurðsson myndhöggvara. 
 
Við val á verðlaunahafa er litið til þess hvort um sé að ræða nýtt sprotafyrirtæki, hvort það sé byggt á nýskapandi tækni og hugmynd og sé kröfuhart á þekkingu. Þá er lagt mat á virðisauka afurða og hvort fyrirtækið hafi náð árangri á markaði. Metið er hvort líkur séu á að fyrirtækið haldi velli og hvort stjórnun nýsköpunar sé til eftirbreytni. Að lokum er metið hvort fyrirtækið sé hvatning fyrir aðra að feta sömu slóð.

Deila