Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
26. nóvember 2014

Endurfundir „ÚH-ara"

Endurfundir „ÚH-ara"
Það var fjölbreyttur hópur sem var samankominn á Grand hótel í gær á fundi fyrrum „ÚH-ara“. Útflutningsverkefnið ÚH (Útflutningsaukning og hagvöxtur) fagnar 25 ára afmæli um þessar mundir.

Það var fjölbreyttur hópur sem var samankominn á Grand hótel í gær á fundi fyrrum „ÚH-ara“. Útflutningsverkefnið ÚH (Útflutningsaukning og hagvöxtur) fagnar 25 ára afmæli um þessar mundir en um 200 manns víðsvegar af landinu hafa tekið þátt frá upphafi. Aðalmarkmið fundarins var að efla tengslanetið og fræðast um eitt og annað sem er að gerast í útflutningsmálum. Alls mættu um 60 manns á fundinn.

Jón Ásbergsson, framkvæmdastjóri Íslandsstofu opnaði fundinn og sagði m.a. að það væri ekki nóg að fá góða hugmynd heldur þyrfti einnig að fylgja henni eftir og ÚH verkefnið væri kjörin leið til að koma hugmynd áfram til hagnaðar. Haukur Björnsson, stjórnandi verkefnisins fyrstu 12 árin, og fyrrum starfsmaður Útflutningsráðs, byrjaði á því að minnast Ingjaldar Hannibalssonar sem lést nýlega, en hann mun hafa átt frumkvæðið að því að innleiða verkefnið hingað til lands, að írskri fyrirmynd. Að hans sögn náði verkefnið fljótt að festa sig í sessi og var meira að segja selt út fyrir landsteinanna, til Eistrasaltsríkjanna og til Malasíu þessi fyrstu ár. Haukur útskrifaði 12 ÚH hópa á Íslandi áður en Hermann Ottósson tók við stjórninni, árið 2002. Hermann hafði á orði að sjaldan hefði hann verið staddur í sal með eins miklu mannviti. Þá sagði hann vönduð vinnubrögð og gott viðmót einkennandi fyrir þá sem hafa gengið í gegnum verkefnið á einhverjum tímapunkti. 

Eggert Benediktsson, forstjóri N1 og fyrrum stjórnarmaður hjá Íslandsstofu þekkir ÚH verkefnið frá fyrstu hendi þar sem hann var þátttakandi í ÚH 5 fyrir 20 árum. Sagði hann verkefnið hafa veitt honum mikinn innblástur og þakkar því að hluta velgengni sína í gegnum árin. Hvað framtíðarhorfur fyrir útflutning á Íslandi varðar, sagði hann það lykilatriði að huga vel að auðlindum landsins. Mikilvægt væri t.a.m. að nýta orkuna á sjálfbæran hátt, stunda ábyrgar fiskveiðar og sýna samfélagslega ábyrgð. Þessi atriði þyrfti að innleiða í ÚH verkefni komandi ára.

Andri Marteinsson, núverandi stjórnandi ÚH og forstöðumaður hjá Íslandsstofu fór yfir útflutningsþjónustu Íslandsstofu. Þá kynnti hann nýja hugmynd, „Hringborð ÚH-ara“ þar sem þátttakendur og leiðbeinendur hittast einu sinni til tvisvar á ári og ræða það sem ber hæst í útflutningsmálefnum þá stundina. Markmiðið er að skapa umræðuvettvang og deila þeirri dýrmætu þekkingu og reynslu sem þátttakendur ÚH búa yfir.

Að lokinni fundardagskrá var gestum boðið að þiggja veitingar og styrkja tengslin.

Deila