Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
14. apríl 2011

Erlendir fjárfestar áhugasamir um minkarækt á Íslandi

Erlendir aðilar sýna minkarækt á Íslandi mikinn áhuga og í sumar eru allt að 20 danskir minkabændur væntanlegir hingað til lands, til að kynna sér aðstæður með fjárfestingar í huga. Fjárfestingarsvið Íslandsstofu og Samtök loðdýrabænda tóku þátt í hinni árlegu sýningu Kopenhagen Fur International sem fram fór í Herning í lok mars og sýndu sýningargestir Íslandi mikinn áhuga. Sýning þessi er ein sú stærsta á sviði loðdýraræktar og var megintilgangurinn með þátttökunni að kynna Ísland sem ákjósanlegan stað fyrir minkarækt.

Fjárfestingarsvið Íslandsstofu byrjaði að vinna að þessu verkefni um mitt ár 2009 og snemmsumars 2010 keypti danskur aðili jörð í Skagafirði og hóf ræktun á mink. Margir þeirra sem kynntu sér aðstæður á Íslandi á sýningunni í Herning höfðu lesið greinar um kosti þess að rækta mink á Íslandi er birst hafa í blaðinu Dansk Pelsdyravl sem gefið er út af Kopenhagen Fur. Voru þessir aðilar mættir til að fá frekari upplýsingar, svo og fréttir af því hvernig gengi hjá samlanda þeirra á Íslandi. Mikil ánægja og bjartsýni ríkti meðal þeirra rúmlega 20 íslensku bænda sem sóttu sýninguna og þykir þeim mikill akkur í því að fjölga bændum í sinni tegund búskapar.

Deila