Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
16. júní 2017

Ferðamenn hvattir til að ferðast um Ísland á ábyrgan hátt

Ferðamenn hvattir til að ferðast um Ísland á ábyrgan hátt
Sumarherferð markaðsverkefnisins Inspired by Iceland hófst í dag. Aðaláhersla herferðarinnar er að hvetja ferðamenn til að ferðast um landið með ábyrgum hætti.

Sumarherferð markaðsverkefnisins Inspired by Iceland hófst í dag. Aðaláhersla herferðarinnar er að hvetja ferðamenn til að ferðast um landið með ábyrgum hætti. Það er gert með því að samþykkja loforð sem kallast „The Icelandic Pledge“ á vef Inspired by Iceland. Loforðið nær til átta atriða sem stuðla að ábyrgri ferðahegðun, svo sem að virða náttúruna og skilja við hana eins og komið var að henni, að keyra ekki utan vega, að koma sér ekki í hættulegar aðstæður við að taka myndir, að tjalda á viðeigandi tjaldsvæðum sem og að vera vel útbúinn á ferðalagi um Ísland í öllum veðrum. Ísland er fyrsta landið sem býður gestum sínum að lofa því að ferðast um landið á ábyrgan og öruggan hátt og að ganga vel um náttúru landsins. Með þessari sumarherferð er hægt að hafa jákvæð áhrif á hegðun ferðamanna á ferðum þeirra um landið.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, ýtti verkefninu úr vör með því að samþykkja loforðið við Landnámssetrið í Borgarnesi kl. 14:00 í dag. Auk ráðherra samþykktu loforðið aðilar frá Samtökum ferðaþjónustunnar, Íslandsstofu og Landsbjörgu.

Þórdís Kolbrún sagði að ferðamenn sem komi til Íslands vilji ferðast með ábyrgum hætti, en viti oft ekki hvað það felur í sér. Loforðið sé liður í að bjóða ferðamenn velkomna og hvetja þá til að ferðast um landið á ábyrgan og öruggan hátt og hafa í huga viðkvæma náttúru landsins. Þórdís segir jafnframt að ánægðir ferðamenn hafi jákvæð áhrif á orðspor og ímynd landsins til lengri tíma. Það sé mikilvægt að stuðla að því að ferðaþjónustan dafni í sátt við samfélag og náttúru.

Ferðamenn geta samþykkt loforðið á www.inspiredbyiceland.com og fá rafræna viðurkenningu að launum sem hægt er að deila áfram á samfélagsmiðlum með myllumerkinu #IcelandicPledge og með því hvatt aðra til þess að gera slíkt hið sama. Íslendingar geta tekið þátt í að hvetja ferðamenn til að samþykkja loforðið með því að deila vefsíðunni á samfélagsmiðlum.

„The Icelandic Pledge“ er framhald af Iceland Academy herferð Inspired by Iceland sem kynnt var í febrúar 2016. Iceland Academy miðar að því að hámarka ánægju og áhuga ferðamanna með því að upplýsa þá með skemmtilegum hætti um ýmislegt sem varðar Íslandsferð, allt frá því hvernig á að njóta heita pottsins sem best yfir í hvernig eigi að huga að öryggi í ferðum sínum um landið. 

Þeir aðilar sem hafa áhuga á að taka þátt og dreifa efni og hvetja til þátttöku geta nálgast grafískt efni hér

Deila