Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
24. febrúar 2015

Ferskir vindar frá Íslandi í Barcelona

Ferskir vindar frá Íslandi í Barcelona
Dagana 18.-19. febrúar fór fram viðamikil Íslandskynning í Barcelona þar sem áherslan var á að kynna ferðaþjónustu, saltfiskafurðir, nýsköpun tengda sjávarafurðum og bókmenntir.

Dagana 18.-19. febrúar fór fram viðamikil Íslandskynning í Barcelona á vegum Íslandsstofu og samstarfsaðila. Forseti Íslands og sendiherra gagnvart Spáni tóku virkan þátt í dagskránni. Áherslan var einkum á að kynna ferðaþjónustu, saltfiskafurðir, nýsköpun tengda sjávarafurðum sem og bókmenntir. Markmiðið er að efla viðskiptatengsl og auka áhuga á Íslandi. 

Aukið mikilvægi Spánarmarkaðar fyrir þorskafurðir

Sjávarafurðir hafa lengstum verið langstærsti hluti vöruútflutnings Íslendinga til Spánar og var verðmæti útfluttra sjávarafurða um 22 milljarðar króna árið 2014. Spánn er nú annar verðmætasti markaður fyrir sjávarafurðir frá Íslandi og vega saltaðar þorskafurðir þar þyngst. 

La Sirena frystivörukeðjan sem selur hágæðaafurðir er með sérstakt kynningarátak á þorskafurðum nú í aðdraganda páskanna og kynnti forseti Íslands sér það úrval sem verslunin býður upp á. 

Forsetinn gerður að heiðursfélaga í saltfiskfélagi Katalóníu

Í heimsókn forseta Íslands á Santa Caterina markaðinn var hann gerður að heiðursfélaga í katalónska saltfiskfélaginu og var honum vel fagnað sem og íslenskum framleiðendum og innflytjendum sem heimsóttu markaðinn. Þeir hafa tekið þátt í markaðsverkefni í samstarfi við Íslandsstofu síðan 2013 og var þessi heimsókn liður í þeirri kynningu.

Vel sóttur kynningarfundur í Casa Llotja de Mar

Ferskir vindar frá Íslandi var yfirskrift kynningarfundar sem haldinn var í glæsilegum húsakynnum Viðskiptaráðs í Barcelona. Aðalræðumaður á fundinum var forseti Íslands en auk hans ávörpuðu formaður Viðskiptaráðs Barcelona og formaður Spánsk-íslenska viðskiptaráðsins fundinn. Síðan fylgdu kynningar á ferðaþjónustu, saltfiskafurðum, nýsköpun og bókmenntum. Í móttöku að fundinum loknum var boðið upp á ljúffengar veitingar úr íslensku hráefni.

Í ferðinni hélt forsetinn einnig  fyrirlestur í IESE viðskiptaháskólanum þar sem hann sagði frá reynslu Íslendinga af endurreisn efnahagslífsins eftir hrun og var ákaft fagnað að erindinu loknu. Hann ávarpaði einnig bókmenntaviðburð þar sem íslenskir höfundar og þýðendur kynntu íslenskar bókmenntir en mikið af íslenskum ritverkum hefur verið þýtt yfir á spænsku.  

Íslandskynningin var samstarfsverkefni Íslandsstofu, sendiráðs Íslands í París, sem er jafnframt sendiráð gagnvart Spáni, aðalræðisskrifstofunnar í Barcelona og Spánsk-íslenska viðskiptaráðsins. Unnið var í góðu samstarfi við Viðskiptaráðið í Barcelona, Ferðamálaráð Barcelona (BarcelonaTourist Board) og bókaútgefendur á Spáni. 

Deila