Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
21. apríl 2015

Fjöldi íslenskra fyrirtækja á sjávarútvegssýningu í Brussel

Fjöldi íslenskra fyrirtækja á sjávarútvegssýningu í Brussel
Yfir 30 íslenskir aðilar taka þátt á sjávarútvegssýningunum í Brussel sem standa yfir þessa dagana. Þar kynna þeir ýmsar nýjungar enda mikil sókn í íslenskum sjávarútvegi um þessar mundir. Um 25 þúsund gestir sækja sýninguna að jafnaði heim.

Sýningarnar þær mikilvægust á sínu sviði í heiminum

Afurðasýningin Seafood Expo Global og tækjasýningin Seafood Processing Global standa yfir dagana 21.-23. apríl 2015 í Brussel. Íslandsstofa sér um og skipuleggur þátttöku fjölda íslenskra fyrirtækja á tveimur þjóðarbásum þar sem kynntar eru sjávarafurðir, tæki, tæknilausnir og þjónusta við sjávarútveg. Gestir eru að jafnaði um 25.000 talsins.

Rúmlega 30 íslenskir aðilar sýna í Brussel

Á afurðasýningunni í höll nr. 6 sýna 18 aðilar, þar af eru fimm með aðstöðu á bás Íslandsstofu: Íslandsbanki, Fjarðalax, Markó Partners, Matís og Icemark. Fyrirtækin sem eru með aðstöðu á þjóðarbásnum á afurðasýningunni eru Ögurvík, Iceland Pelagic, Íslenska umboðssalan, Menja, Vinnslustöðin, Vísir, Tríton, Félag atvinnurekenda, Ican, Novofood, Golden Seafood, Iceland Responsible Fisheries og Íslandsstofa.

Á tækjasýningunni í höll nr. 4 eru á þjóðarbásnum Valka, Samskip, Skaginn 3X, Optimar, Ocean Excellence, Traust, Wise, Hampiðjan, Borgarplast og Eimskip. Azazo og Héðinn hafa aðstöðu hjá Íslandsstofu í höll 4. Sjálfstæðir sýnendur eru HB Grandi, Icelandic Group, Iceland Seafood, Promens, Marel og Samherji.

Íslensku aðilarnir kynna ýmsar nýjungar á sýningunni og er mikil sókn í íslenskum sjávarútvegi um þessar mundir sem einkennist af endurnýjun skipa í flotanum, innleiðingu tækninýjunga sem tryggja ferskleika afurðanna og lengra geymsluþol, bættir flutningar, fiskistofnar eru á uppleið, auk þess sem uppsveifla er í fiskeldi. Þá er líka mikil gróska í útgáfustarfsemi um íslenskan sjávarútveg. Tveimur tímaritum á ensku verður dreift á sýningunni, Cool Atlantic sem Athygli gefur út og Fishing The News sem Sjávarafl gefur út en fyrirtækið hefur einnig hleypt af stokkunum nýjum vef á ensku um sjávarútveg. Nýlega var annar vefur á ensku um íslenskan sjávarútveg opnaður en hann er www.icefishnews.com.

Vinsamlegast hafið samband við Guðnýju Káradóttur, gudny@islandsstofa.is, gsm 693 3233 eða Björgvin Þór Björgvinsson, bjorgvin@islandsstofa.is, gsm 898 7702, varðandi nánari upplýsingar um sýninguna og þátttöku Íslands.

Deila