Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
29. nóvember 2019

Fjölmenn viðskiptasendinefnd íslenskra fyrirtækja á ferð í Moskvu

Fjölmenn viðskiptasendinefnd íslenskra fyrirtækja á ferð í Moskvu
Fjölmenn viðskiptasendinefnd íslenskra fyrirtækja var í Rússlandi í vikunni í tengslum við heimsókn utanríkisráðherra til Moskvu.

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, og Sergey V. Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands funduðu í Moskvu mánudaginn 25. nóvember. Markmiðið með viðskiptasendinefnd íslenskra fyrirtækja til borgarinnar á sama tíma var að efla og styrkja viðskipti við Rússland, bæði með því að rækta núverandi viðskiptatengsl sem og líta til nýrra tækifæra. 

Alls skipuðu fulltrúar 19 íslenskra fyrirtækja viðskiptasendinefndina, auk fulltrúa skipuleggjenda. Átti hópurinn m.a. fund hjá Business Russia um viðskipti landanna í millum og frekara samstarf. Hópurinn heimsótti einnig nýsköpunarstofnun Rússlands, Skolkovo, í útjaðri Moskvu og fékk kynningu á starfsemi hennar auk þess sem bæði íslensk og rússnesk fyrirtæki kynntu þar verkefni sín.

Þriðjudaginn 26. nóvember tók sendinefndin þátt í viðskiptaviðburði með utanríkisráðherra sem fram fór í sendiráði Íslands í Moskvu. Viðburðurinn var afar vel sóttur en um 170 gestir voru á staðnum og góður rómur gerður að. Í opnunarávarpi sínu lagði ráðherra áherslu á tækifæri til eflingar viðskipta landanna í millum þrátt fyrir viðskiptabann. Fagnaði hann m.a. auknum viðskiptum íslenskra og rússneskra fyrirtækja á sviði sjávarútvegstækni og landbúnaðar. Auk hans flutti ávarp í móttökunni Arkady Dvorkovich, fyrrverandi aðstoðarforsætisráðherra og stjórnarformaður Skolkovo nýsköpunarmiðstöðvarinnar. Fulltrúar íslensku fyrirtækjanna á staðnum gafst einnig kostur á að kynna starfsemi sína. 

Um var að ræða samstarfsverkefni hin nýstofnaða Rússensk-íslenska viðskiptaráðs, Íslandsstofu, utanríkisráðuneytisins og sendiráðs Íslands í Moskvu.

Deila